OSPAR gefur leyfi fyrir geymslu koltvísýrings í neðansjávarjarðlögum
Stjórn OSPAR samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins ákvað nýverið á fundi í Ostend í Belgíu að leyfa dælingu og geymslu koltvísýrings í neðansjávarjarðlögum. Á fundinum voru einnig samþykktar reglur um hvernig dælingu og geymslu koltvísýrings skuli háttað.
Ákvörðun um þetta er tekin til að draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á hafið en samkvæmt skýrslu OSPAR sem birt var í fyrra hefur sýrustig sjávar hækkað af völdum aukins magns gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti. Markmið OSPAR samningsins er að koma í veg fyrir mengun Norðaustur-Atlantshafsins með því að draga úr mengun frá landi, mengun af völdum varps og brennslu, og mengun frá uppsprettum í hafi. Auk þess tekur samningurinn á mati á ástandi hafsins og verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins.
Sesselja Bjarnadóttir, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu og fulltrúi Íslands á fundinum, sagði að sátt hefði verið um tillöguna sem verið hefur í undirbúningi frá árinu 2002. Samhliða tillögunni hefðu verið samþykktar ítarlegar leiðbeiningar um ferlið og gilda strangar reglur um val á stöðunum, dælingu og frágang. Ísland studdi tillöguna þar sem áhrif loftlagsbreytinga á hafið eru þegar farnar að koma fram og nauðsynlegt að leita leiða til að draga úr þeim. Hún sagði einnig að jafnframt þessari tillögu hefði verið samþykkt einróma bann við geymslu koltvísýrings í sjó og á hafsbotni vegna skaðlegra áhrifa þess á vistkerfi sjávar.
Á fundinum í Belgíu var ákveðið að binding koltvísýrings og geymsla (Carbon capture and storage) yrði formlega viðurkennd í OSPAR samningnum sem ein af þeim aðferðum sem beita má til að draga úr loftslagsbreytingum og súrnun sjávar. Fram kom í máli David Johnson, formanns stjórnar OSPAR, að nauðsynlegt væri að setja reglur um geymslu koltvísýrings neðanjarðar til þess að hafa yfirsýn og betri stjórn á aðferðinni sem væri ný af nálinni.
Norðmenn hafa reynslu af því að geyma koltvísýring í neðansjávarlögum. Það var fyrst gert á borpallinum Sleipni á Norðursjó, þaðan sem koltvísýringi er dælt niður í gasnámur. Þá undirbúa Hollendingar og fleiri þjóðir sams konar verkefni. Koltvísýringnum er aðallega dælt í neðansjávarjarðlög á stöðum sem búið er að tæma af olíu.
OSPAR leggur áherslu á að binding og geymsla kolefnis sé aðeins hluti af þeim aðgerðum sem grípa þurfi til svo draga megi úr magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti. Aðallega þurfi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með orkusparnaði og eflingu orkuframleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Skýrsla IPCCC um bindingu koltvísýrings og geymslu.