Iðnaðarráðherra hefur vísað frá umsóknum um rannsóknarleyfi.
Iðnaðarráðherra hefur vísað frá umsóknum um rannsóknarleyfi á eftirtöldum svæðum: Brennisteinsfjöllum, Kerlingafjöllum, Torfajökulssvæðinu og Langasjó. Þá hefur iðnaðarráðherra einnig vísað frá umsóknum um rannsóknarleyfi í Grændal og á Fremrinámasvæðinu þar sem um óröskuð svæði er að ræða.
Á undanförnum árum hefur ráðuneytinu borist nokkur fjöldi umsókna frá orkufyrirtækjum og landeigendum um leyfi til rannsókna á jarðhitasvæðum og vatnsföllum.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 segir m.a. að stefnt verði að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þá segir í stefnuyfirlýsingunni: Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir. Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hefur farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni.
Reykjavík, 13. júlí 2007.