Varnaræfingin Norður Víkingur 07
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 67/2007
Fyrsta varnaræfingin sem fram fer á Íslandi á grundvelli samkomulags íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá 11. október, 2006 um varnir landsins fer fram hér á landi dagana 13. - 16. ágúst n.k. Markmið æfingarinnar er að æfa flutning liðsafla til landsins á hættu - og ófriðartímum, staðsetningu, varnarviðbúnað, ákvarðanatöku og samræmingu við íslensk stjórnvöld. Fyrirhugað er að æfingar af þessu tagi verði reglubundin hluti af varnarviðbúnaði landsins.
Æfingin skiptist í tvo aðskilda þætt; loftvarnaræfingu og hins vegar æfingu gegn hermdar - og hryðjuverkum. Yfirstjórn æfingarinnar verður í höndum fulltrúa utanríkisráðherra, en samræmingaraðili fyrir loftvarnaræfinguna verður fulltrúi bandaríska flughersins í Evrópu og fyrir æfinguna gegn hermdar - og hryðjuverkum verður fulltrúi ríkislögreglustjóra.
Í loftvarnaræfingunni taka þátt Bandaríkjamenn með þrjár F-15 orustuflugvélar og tvær KC - 135 eldsneytisflugvélar og Norðmenn með tvær F-16 orustuflugvélar og eina P-3 eftirlits - og kafbátarleitarflugvél. Frá Atlantshafsbandalaginu munu tvær AWAC´s - ratsjárflugvélar taka þátt, en önnur þeirra mun fljúga frá Noregi án viðkomu hér á landi. Varðskipið Triton frá Danmörku tekur einnig þátt í hluta loftvarnaræfingarinnar og stendur leitar - og björgunarvakt. Stjórnstöð íslenska loftvarnarkerfisins mun gegna hlutverki sem yfirstjórnstöð æfingarinnar. Ennfremur mun Landhelgisgæslan leggja til tvær björgunarþyrlur á meðan æfingin varir. Loftvarnaræfingin mun fara fram í fullu samráði við Flugstoðir ohf. Áætlaður fjöldi þátttakenda í þessum hluta æfingarinnar er um 240 manns.
Í æfingunni gegn hermdar - og hryðjuverkum taka þátt 20 norskir, 6 danskir og 16 lettneskir sérsveitarmenn auk sérsveitar ríkislögreglustjóra (Víkingasveitin) með 15 manns eða alls 65 manns. Heildarfjöldi þátttakenda verður því alls um 300 manns, 13 flugvélar, þyrlur og eitt eftirlitsskip.
Fyrirhugað er að efna til sérstaks fjölmiðladags í upphafi æfingarinnar og verður tilhögun hans kynnt síðar. Einnig er búist við heimsókn háttsettra gesta á æfinguna og verður það kynnt síðar.