Vinnuferð utanríkisráðherra til Mið-Austurlanda
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 81/2007
Utanríkisráðherra hélt í gær í vinnuferð til Mið-Austurlanda. Ferðinni er heitið til Ísraels, á heimastjórnarsvæði Palestínumanna og til Jórdaníu.
Tilgangur vinnuferðarinnar í heild er þríþættur, þ.e. að sjá og heyra um aðstæður á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna og í Ísrael, að kynnast viðhorfum stjórnvalda og fleiri á svæðinu til öryggis- og friðarhorfa og að kynnast flóttamannavanda Íraks frá fyrstu hendi í Jórdaníu.
Í dag skoðar utanríkisráðherra aðstæður í norðurhluta Ísraels. Á morgun mun ráðherra eiga fund með Shimon Peres, nýkjörnum forseta Ísraels, auk fundar með utanríkisráðherra og öðrum ísraelskum ráðamönnum. Síðar í vikunni mun utanríkisráðherra eiga fundi með ráðamönnum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna. Auk þess er verulegur hluti ferðarinnar helgaður heimsóknum og viðræðum við félagasamtök og almenna borgara.
Svavar Gestsson sendiherra Íslands gagnvart Ísrael er með í för auk aðstoðarmanns ráðherra og sérfræðinga ráðuneytisins.