Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2007 Dómsmálaráðuneytið

Leitað að nýrri þyrlu

Björgunarþyrlan TF-SIF
Björgunarþyrlan TF-SIF

Mannbjörg varð þegar björgunarþyrlan TF-SIF nauðlenti í sjónum skammt undan Straumsvík að kvöldi 16. júlí. Fjögurra manna áhöfn komst heil á húfi úr þyrlunni um borð í björgunarskipið Einar J. Sigurjónsson sem var við æfingar með landhelgisgæslunni.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, sem tók á móti áhöfninni þegar hún kom til hafnar í Straumsvík, ásamt Georg Lárussyni, forstjóra landhelgisgæslunnar, segir áhöfnina hafa sýnt mikið æðruleysi við þessar erfiðu aðstæður og hafi hún brugðist við á réttan hátt. „Í okkar huga er aðalatriði að mannbjörg varð og allir eru heilir. En strax og ljóst var að þyrlunni yrði líklega ekki flogið framar hófu starfsmenn landhelgisgæslunnar að kanna hvernig unnt yrði að fylla skarð hennar. Markmið okkar hefur verið að hafa tvær stórar þyrlur og tvær minni í flota landhelgisgæslunnar og nú verður leitað allra leiða til að finna þyrlu í stað Sifjar eins fljótt og auðið er."

Björgunarþyrlan TF-SIF, sem er af gerðinni Aerospatiale Dauphin II SA-365 N, var keypt ný hingað til lands frá Frakklandi árið 1985. Hún hefur reynst vel í 22 ár og bjargað tugum ef ekki hundruð mannslífa.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum