Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2007 Innviðaráðuneytið

Víðtæk réttindi fyrir íslenska flugrekendur með nýjum loftferðasamningi

Áritaður hefur verið nýr loftferðasamningur milli Íslands og Kanada sem veitir íslenskum flugrekendum víðtæk réttindi til áætlunarflugs milli landanna. Samningurinn heimilar meðal annars einnig millilendingar og flug til áfangastaða utan Kanada.

Benedikt Jónsson, sendiherra og Nadel Patel, aðalsamningamaður Kanada í loftferðasamningum árituðu loftferðasamninginn þann 11. júlí í Ottawa. Samningurinn er sá fyrsti sem gerður er milli ríkjanna og kemur í stað samkomulags frá 2001 sem gert var vegna flugs Icelandair.

Loftferðasamningurinn heimilar íslenskum flugrekendum mjög víðtæk réttindi til áætlunarflugs með farþega, farangur, farm og póst til Kanada, millilendingar utan Kanada og áfangastaða handan Kanada. Samningurinn tekur einnig til farm- flugs og heimilar flug til Kanada án viðkomu á Íslandi (7. réttindi). Samningurinn tiltekur ótakmarkaða tíðni, flutningsmagn og frjálst val viðkomu- og áfangastaða í Kanada og staða handan Kanada. Samningurinn er meðal þeirra frjálslegustu sem Kanadmenn hafa gert, en áður hafa þeir samið við Bandaríkin, Bretland og Írland með svipuðu sniði.

Samningurinn mun taka gildi þegar við áritun. Hraðað verður eftir megni undirbúningi fyrir undirritun samningsins. Langur aðdragandi var að gerð loftferðasamningsins og hefur sendiráð Íslands í Kanada haft veg og vanda að undirbúningi viðræðna. Áralöng staðföst viðleitni Icelandair, einkum flugþjónusta þess við Atlantshafshéruð Kanada, Halifax og St. John’s, liðkaði mjög fyrir samningagerðinni.

Benedikt Jónsson, sendiherra var formaður samninga­nefndar Íslands. Aðrir nefndarmenn voru: Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, Markús Örn Antonsson, sendiherra Íslands í Kanada, og Ástríður S. Thorsteinsson lögfræðingur í samgönguráðuneytinu. Einnig sat fundina Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, en hann var sá eini sem tilnefndur var af hagmunaaðilum til þátttöku í viðræðunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta