Ráðherra minnir á reglur um útgáfu leyfa vegna útihátíða
Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur nú, eins og undanfarin ár, sent ríkislögreglustjóra og öllum lögreglustjórum bréf þar sem minnt er á þær reglur sem gilda um útgáfu leyfa vegna útihátíða, með sérstöku tilliti til verslunarmannahelgarinnar.
Umburðarbréf ráðherra:
Ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar, sýslumenn og Lögregluskóli ríkisins
Undanfarin ár hef ég sent ríkislögreglustjóra og öllum lögreglustjórum viðmiðunarreglur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við útgáfu leyfa vegna útihátíða með sérstöku tilliti til verslunarmannahelgarinnar.
Þann 1. þ.m. tóku gildi ný lög um um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Samkvæmt þeim lögum veita sýslumenn að uppfylltum tilteknum skilyrðum tækifærisleyfi fyrir einstökum atburðum og skemmtunum en undir það falla m.a. útihátíðir.
Á grundvelli þessara laga hefur verið sett reglugerð, nr. 585/2007 en í B lið IV. kafla hennar er m.a. kveðið á um skilyrði fyrir veitingu tækifærisleyfis, umsögnum lögreglustjóra áður en leyfi er veitt, löggæslu og greiðslu kostnaðar vegna löggæslu en sett hefur verið gjaldskrá af því tilefni. Tel ég þörf á vegna komandi verslunarmannahelgar að minna á þau skilyrði og reglur sem gerð er grein fyrir í framangreindri reglugerð.
Þá vil ég sérstaklega vekja athygli á 32. gr. reglugerðarinnar. Í greininni kemur fram að leyfi fyrir útihátíðum og öðrum útisamkomum þar sem fólk gistir á tjaldsvæðum og ætla má að gestafjöldi verði yfir 1500 skuli að lágmarki vera bundið eftirfarandi skilyrðum:
1. Að sérstök móttaka verði á svæðinu fyrir aðhlynningu þolenda kynferðisbrota eða að þeim verði tryggð aðstoð sérstaks fagfólks með þekkingu og reynslu af móttöku þolenda kynferðisbrota á næsta sjúkrahúsi eða heilsugæslu.
2. Að mótshaldari sæki daglega samráðsfundi með yfirmönnum lögreglu, fulltrúum frá heilsugæslu og gæsluliðum.
3. Að bílastæði fyrir samkomugesti verði afmörkuð og girt af
4. Að nægileg gæsla sé á tjaldsvæðum og mótssvæði
5. Að mótshaldari tryggi nægjanlega lýsingu á myrkum svæðum, t.d. á bílastæðum, við salerni, tjaldsvæði, matartjöld og við lögreglu- og heildugæslumiðstöð.
Þá vil ég minna á að samkvæmt 4. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir eru útihátíðir starfsleyfisskyldar og í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 er að finna nánari útfærslu á framkvæmd slíkrar starfsleyfisumsóknar.
Reykjavík, 17. júlí 2007,
Björn Bjarnason
dóms- og kirkjumálaráðherra