Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2007 Matvælaráðuneytið

Fjarðarárvirkjun

Iðnaðarráðuneyti, fréttatilkynning nr. 5/2007

Iðnaðarráðuneytið hefur óskað eftir því að Orkustofnun kalli inn nú þegar öll gögn frá Fjarðarárvirkjun og eftirlitsaðilum vegna hennar.

Um leið er lagt er fyrir stofnunina að fulltrúar hennar verði sendir tafarlaust á vettvang til að gera úttekt á stöðu framkvæmda með tilliti til þess hvort, og þá hvernig, framkvæmdir hafi farið umfram heimildir. Ráðherra mun að fenginni úttekt Orkustofnunar meta hvort ástæða sé til þess að afturkalla virkjunarleyfi Fjarðarárvirkjunnar. Orkustofnun hefur sömuleiðis verið falið af ráðuneytinu að kanna hvort leyfishafi Múlavirkjunar hafi við framkvæmdir farið fram úr heimildum og skilyrðum sem sett voru í aðdraganda veitingu virkjanaleyfis. Í framhaldi af niðurstöðu stofnunarinnar og með hliðsjón af umsögnum annarra stofnana, t.d. Skipulagsstofnunar og Veiðimálastofnunar, mun ráðherra taka ákvörðun um hvort virkjanaleyfi verði veitt tímabundið og með hvaða skilyrðum. Þá hafa þeir þrír ráðherrar, sem málið varðar, iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra og félagsmálaráðherra ákveðið að skipa starfshóp til þess að gera almenna rannsókn á verkferlum, ákvörðunum og lögum tengdum leyfisveitingum og framkvæmdaeftirliti vegna virkjunarframkvæmda, meðal annars í ljósi þeirra álitamála sem upp hafa komið í tengslum við Múlavirkjun og Fjarðarárvirkjun.

Iðnaðarráðuneytið hefur falið Orkustofnun að ganga nú þegar eftir því að virkjunarleyfishafi í Fjarðará afhendi hönnunargögn vegna Bjólfsvirkjunar og Gúlsvirkjunar í samræmi við heimildir í reglugerð um framkvæmd raforkulaga. Jafnframt verði gengið úr skugga um að ekki sé farið út fyrir þær forsendur sem fram koma í umsögn Orkustofnunar og lágu til grundvallar ákvörðun Skipulagsstofnunar og virkjunarleyfa iðnaðarráðherra.

Með tilliti til þeirra alvarlegu ábendinga sem fram koma í umsögn Þórodds F. Þóroddsonar, sviðsstjóra umhverfissviðs Skipulagsstofnunar, vegna framkvæmda við Fjarðarárvirkjun, hefur iðnaðarráðuneytið ennfremur lagt fyrir Orkustofnun að hún sendi starfsmenn sína þegar í stað á vettvang til að meta hverra úrbóta er þörf varðandi virkjunarframkvæmdirnar. Orkustofnun getur fylgt kröfum sínum um úrbætur eftir að viðlögðum dagsektum sem nema 50.000 til 500.000 krónum á dag.

Í umsögn Þórodds kemur m.a. fram að umrót og eyðilegging á náttúru sé langt út fyrir fyrirhugað athafnasvæði. Verkþættir sem þegar hafi verið unnir liggi undir skemmdum og þurfi að vinna þá upp á nýtt. Umhverfisáhrif séu óljós.  Meðal alvarlegustu athugasemda sviðsstjórans eru að óvíst sé, hvort framkvæmd verksins uppfylli alla öryggisstaðla vegna lagningar þrýstipípu og byggingar stíflugarðs.

Umsögn Þórodds styður það sem virtur náttúrufræðingur hefur fullyrt í fjölmiðlum að Fjarðarárvirkjun sé ekki aðeins dæmi um “óafmáanleg náttúruspjöll” heldur sé hún ógn við öryggi íbúa Seyðisfjarðar. Fullyrðingar um að lífi og limum Seyðfirðinga kunni að vera hætta búin vegna virkjunarframkvæmda eru þess eðlis að óhjákvæmilegt er að bregðast við þeim af einurð.

Orkustofnun hefur einnig, einsog áður sagði, verið falið að kanna hvort framkvæmdir við Múlavirkjun séu umfram þau skilyrði, sem opinberar stofnanir settu leyfisveitingum. Í ljósi niðurstöðu úttektar stofnunarinnar, og með hliðsjón af umsögnum annarra stofnana, sem að málinu koma, mun iðnaðarráðherra meta hvort virkjunarleyfi verður endurnýjað tímabundið, og þá með hvaða skilyrðum.

Iðnaðarráðherra mun í ljósi umsagnar Skipulagsstofunar og niðurstöðu Orkustofnunar taka afstöðu til þess hvort virkjunarleyfi Fjarðarárvirkjunar verður afturkallað eins og áður sagði.

Jafnframt hafa þeir þrír ráðherrar sem málið varðar, iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra og félagsmálaráðherra, ákveðið að skipa starfshóp til að gera almenna úttekt á verkferlum tengdum leyfisveitingum og framkvæmdaeftirliti vegna virkjunarframkvæmda, meðal annars í ljósi þeirra álitamála sem upp hafa komið í tengslum við Múlavirkjun og Fjarðarárvirkjun. 

Í úttektinni verði metið hvort ákvarðanir hafi verið í samræmi við gildandi lög og hvort fylgt hafi verið þeim verkferlum sem lögin gera ráð fyrir. Komi í ljós að misbrestur hafi orðið í samskiptum milli stofnana eða aðrir hnökrar orðið við afgreiðslu og eftirlit, er óskað eftir því að verkferlar verði skýrðir og skráðir og tillögur settar fram um hvernig samstarfi ráðuneyta og stofnana verði sem best komið í fastar skorður þannig að sem minnst hætta sé á mistökum eða skorti á nauðsynelgu samráði.

Einnig sé í úttektinni metið hvort brestur hafi orðið í eftirliti opinberra stofnana og á sveitarstjórnarstigi. Ef þörf er talin er óskað eftir tillögum til úrbóta á þessu sviði.

Í úttektinni verði einnig farið yfir það hvort einhverjir þeir ágallar séu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingarlögum og raforkulögum sem nauðsynlegt sé að bæta úr þannig að ákvarðanir um leyfi til virkjunarframkvæmda og eftirlit með þeim séu eins skilvirk og kostur er.

Reykjavík, 7. ágúst 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta