Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármagnstekjur

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 14/2007

Eftir að niðurstöður skattaálagningar á einstaklinga árið 2007 lágu fyrir um síðustu mánaðamót hefur í umfjöllun fjölmiðla um fjármagnstekjuskatt margoft verið fullyrt að ríkið sitji eitt að skattgreiðslum á þriðja þúsund manns sem séu ekki með aðrar tekjur en fjármagnstekjur og greiði því einungis fjármagnstekjuskatt sem rennur til ríkisins, en greiði ekkert til sveitarfélaga, þótt þeir nýti sér þjónustu sveitarfélaganna.

Fjármálaráðuneytið hefur af þessu tilefni látið greina fjármagnstekjur þeirra sem ekki voru með aðrar tekjur en fjármagnstekjur á árinu 2006. Kemur þá eftirfarandi í ljós :

1. Á árinu 2006 var fjöldi einhleypra sem ekki var með neinar aðrar tekjur en fjármagnstekjur alls 2.381. Þar af voru hins vegar 2.128, eða tæplega 90 %, með minna en 50 þúsund krónur í fjármagnstekjur á árinu. Að stórum hluta er hér um að ræða ungt fólk sem ekki er á vinnumarkaði. Samtals 2.270, eða 95 % alls hópsins, er með minna en eina milljóna króna í fjármagnstekjur. Af þeim 2.381 einstaklingum sem hér um ræðir greiða einungis 116 einhvern fjármagnstekjuskatt.

2. Á árinu 2006 var fjöldi hjóna sem ekki var með neinar aðrar tekjur en fjármagnstekjur alls 150. Þar af voru 85 hjón, eða 57 %, með minna en 100 þúsund krónur á árinu í fjármagnstekjur og 92 hjón, eða 61 %, með minna en eina milljón króna í fjármagnstekjur. Einungis 51 hjón úr þessum hópi greiða einhvern fjármagnstekjuskatt.

Reykjavík 10. ágúst 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum