Nr. 6/2007 - Landbúnaðarráðherra sækir heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi
Einar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðarráðherra sótti heimsmeistaramót íslenska hestsins sem fram fór í Oirschot í Hollandi 6. til 12. ágúst sl. Einar Kristinn kom á mótsstað fimmtudaginn 9. ágúst og var viðstaddur formlega setningu leikanna en að því loknu hélt hann ávarp við opnun svokallaðs hestatorgs (Icelandic Horse Plaza) sem er stór sameiginlegur sýningabás allra helstu félagasamtaka innan hestamennskunnar hér á landi, þ.e. LH, FHB og FT auk Hólaskóla, Worldfengs, Landsmóts ehf. og Söguseturs íslenska hestsins.
Síðdegis á föstudeginum 10. ágúst hélt ráðherra móttöku fyrir forystu FEIF og hin fjölmörgu landssamtök unnenda íslenska hestsins erlendis, forystu hestamanna hér heima og landsliðið. Laugardaginn 11. ágúst átti ráðherra fund með stjórn FEIF.
Síðasta keppnisatriði leikanna voru úrslit í tölti þar sem keppt er um hið svokallaða tölthorn og afhenti ráðherra það sigurvegaranum Stian Petersen frá Noregi. Ráðherra flutti síðan hátíðarávarp í lokaathöfn mótsins.
Heimsmeistaramótið í Hollandi var haldið við góðar aðstæður á sýningasvæði sem komið var upp á gamalgrónum búgarði fjölskyldu sem stundað hefur atvinnustarfsemi í hestamennsku á íslenskum hestum um langt árabil. Mótið fór hið besta fram og er sýnileg framför í hestamennskunni á íslenskum hestum víða um heim. Var för landbúnaðaráðherra afar fróðleg og gagnleg upp á fjölmörg tengsl sem þar mynduðust.