Ráðið í stöður til að bæta þjónustu við blinda og sjónskerta
Að tillögu framkvæmdanefndar, skipaðri af menntamálaráðherra í maí 2007, ákvað ríkisstjórnin fyrr í sumar að grípa til sérstakra aðgerða til að hægt verði að halda uppi og bæta þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga. Ákveðið var að setja á laggirnar nýjar stöður blindrakennara/kennsluráðgjafa og stöður kennara í umferli og athöfnum daglegs lífs. Voru störfin auglýst í júlí, alls bárust 22 umsóknir og hefur nú verið ráðið í störfin.
Baldur Gylfason sálfræðingur, Guðbjörg Árnadóttir kennslufræðingur, Guðný Katrín Einarsdóttir þroskaþjálfi og Sabína Steinunn Halldórsdóttir íþróttakennari voru ráðin í störf kennara í umferli og athöfnum daglegs lífs. Dóra Soffía Þorláksdóttir grunnskólakennari, Elfa Svanhildur Hermannsdóttir grunnskólakennari og Ingunn Hallgrímsdóttir leikskóla- og blindrakennari voru ráðnar í störf blindrakennara / kennsluráðgjafa. Flestir hinna nýráðnu einstaklinga munu hefja sérfræðinám á viðeigandi sviði núna á haustmánuðum og stunda það næstu 1-2 ár samhliða sérfræðistarfinu.
Með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur verið tekið mikilvægt skref til að efla þjónustu við blinda og sjónskerta. Frekari úrbætur eru í vinnslu, en þar stærst er tillaga um að stofnuð verði miðlæg miðstöð með allri þjónustu fyrir blinda og sjónskerta.