Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2007 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Farsímasamband komið á Öxnadal og Norðurárdal

Nýr sendir fyrir farsímaþjónustu var tekinn í notkun í dag í Norðurárdal í Skagafirði og þjónar hann Hringveginum í dalnum og stærstum hluta Öxnadalsheiðar. Á næstu vikum koma inn fleiri kaflar á Hringveginum og gert er ráð fyrir að hægt verði að nota GSM-farsíma allan hringinn í lok ársins.

Nýr kafli á Hringveginum kominn með farsímasamband.
Nýr kafli á Hringveginum kominn með farsímasamband. Kristján L. Möller og Brynjólfur Bjarnason innsigla nýja kaflann.

Kristján L. Möller samgönguráðherra kynnti stöðu GSM-uppbyggingar á vegakerfi landsins í Norðurárdal í dag. Viðstaddir voru fulltrúar þeirra sem vinna að þessum áfanga verkefnisins, meðal annarra Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, Þór Jes Þórisson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Símans, Friðrik Már Baldursson, formaður fjarskiptasjóðs, Páll H. Jónsson, forstjóri Mílu og fleiri.

Nýlega voru afhent útboðsgögn vegna síðari áfanga uppbyggingar GSM-farsímaþjónustunnar á þjóðvegum landsins. Bjóðendur sem uppfylltu skilyrði forvals hafa frest til að skila tilboðum til 16. október. Gera má ráð fyrir að vinna við síðari áfangann geti hafist kringum áramót.

Fjarskiptasjóður vinnur að því markmiði fjarskiptaáætlunar að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á Hringveginum og öðrum helstu stofnvegum og á helstu ferðamannastöðum. Stjórn sjóðsins ákvað að skipta GSM-verkefninu í tvo áfanga.

Fyrri áfangi

Vinna við fyrri áfanga er í fullum gangi og unnið er að því að uppbyggingu vegna GSM farsímaþjónustu á öllum Hringveginum ljúki um næstu áramót í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunar. Þá verður farsímanotkun einnig möguleg á Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjallsvegi, Fagradal og Fjarðarheiði í lok ársins svo og á nokkrum ferðamannsvæðum.

Meðal nýrra svæða á Hringveginum sem komið hafa inn í sumar eru Öxnadalsheiðin, kaflar í Húnavatnssýslu og kaflar á sunnanverðum Austfjörðum. Önnur svæði í fyrri áfanga munu koma inn eitt af öðru á þriðja og fjórða ársfjórðungi.

Skrifað var undir samning við Símann hf. í byrjun þessa árs og er samningsupphæðin 565 milljónir króna en við hana bætist kostnaður vegna lagningar rafmagns á allmarga staði þar sem sendar eru settir upp. Alls tekur þessi áfangi til um 450 km kafla og verða settir upp 38 sendar, byggð 29 hús og reist 31 mastur vegna þessarar bættu fjarskiptaþjónustu.

Síðari áfangi

Síðari áfanginn snýst um að koma á GSM-sambandi á þá stofnvegi sem verða án þjónustu að loknum fyrri áfanganum sem nú er unnið að. Má þar nefna ýmsa fjallvegi svo sem Bröttubrekku, heiðar á Vestfjörðum svo sem Gemlufallsheiði, Dynjandisheiði og Kleifaheiði, einnig Öxarfjarðarheiði og Hellisheiði eystri. Í þessum áfanga verður einnig komið upp GSM-þjónustu á þeim ferðamannasvæðum sem eru í nágrenni þessara stofnvega, til dæmis Krýsuvík og við Eiríksstaði í Haukadal. Þá á að bæta GSM-samband á nokkrum ferðamannasvæðum í þjóðgörðunum við Snæfellsjökul og Jökulsárgljúfur. Uppbyggingu skal lokið á 22 mánuðum en þó skal ljúka 75% verksins á árinu 2008. Lögð verður sérstök áhersla á að flýta uppbyggingu svæða á Vestfjörðum og Norðausturlandi og tryggt að þeim svæðum verði lokið árið 2008. Í síðari áfanga verða settir upp 42 sendar, byggð 27 hús og reist 27 möstur.

Mikilvægur öryggishlekkur

Með því að stuðla að aukinni útbreiðslu GSM-farsímanetsins á þeim svæðum sem ekki er líklegt að verði þjónað á markaðslegum forsendum er ætlunin að auka öryggi vegfarenda og bæta farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins. Þrátt fyrir að farsímakerfið hafi ekki verið hannað sem öryggiskerfi er ljóst að almenn eign slíkra farsíma er mikilvægur liður í öryggi auk þess sem farsíminn gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum í nútímaþjóðfélagi.

Útboð vegna háhraðatenginga

Fjarskiptasjóður vinnur einnig að undirbúningi útboðs sem snýst um það að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum. Í sumar hefur verið unnið með markaðsaðilum að því að greina þau svæði á landinu sem marksaðilar telja sig ekki geta sinnt vegna fámennis án þess að fá til þess styrk úr fjarskiptasjóði. Stefnt er að því að sú vinna klárist um miðjan september. Vinna við gerð útboðsgagna er einnig langt komin en hún sýnst að miklu leyti um að skilgreina þær kröfur sem gerðar verða til þjónustunnar. Áætlað er að útboðið verði auglýst í október næst komandi.

GSM-samband komið á Norðurárdal og Öxnadalsheiði.
GSM-samband er nú komið á enn einn kafla Hringvegarins í Norðurárdal og Öxnadalsheiði sem hér sést frá fjallshlíðinni ofan við Fremra Kot þar sem nýjum sendi hefur verið komið fyrir. Vegurinn hægra megin er nýr 14,4 km kafli í Norðurárdal sem Héraðsverk vinnur nú að og verður að mestu tilbúinn í nóvember. Með þessum nýja kafla Hringvegarins fækkar einbreiðum brúm um fjórar og þá verður aðeins ein slík á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta