Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnun ljósmyndasýningar í Norræna húsinu

Fyrr í sumar efndi félagsmálaráðuneytið í samvinnu við vinnuskóla landsins til ljósmyndasamkeppni þar sem nemendur vinnuskólanna voru hvattir til að fanga fjölbreytileikann í myndefni sínu. Keppnin er liður í vitundarvakningu í samfélaginu um jöfn tækifæri fyrir alla í tilefni Evrópuársins 2007, Árs jafnra tækifæra. Mikill fjöldi mynda barst frá unglingunum. Á myndunum má sjá að unglingarnir lögðu mikla vinnu í myndefnið og hafa gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn. Valdar myndir verða prentaðar sem póstkort og dreift víðs vegar um landið.

Sunnudaginn 19. ágúst næstkomandi klukkan 17.30 munu úrslit keppninnar verða kunngjörð í Norræna húsinu þar sem ljósmyndasýningin verður opnuð. Dómnefndin valdi fimmtán myndir sem verða sýndar á sýningunni og koma þessar myndir til greina sem sigurvegarar í ljósmyndasamkeppninni. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra mun tilkynna úrslit keppninnar og afhenda verðlaun.
Sýningin er opin öllum og eru allir hvattir til að koma og sjá hvernig unglingar landsins skilgreina fjölbreytileikann í myndefni.

Ljósmyndasýningin er hluti af Reyfi hátíð Norræna hússins sem haldin er frá 18. ágúst til 26. ágúst. Fjölbreytt dagskrá hátíðarinnar hentar öllum aldurhópum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta