Rafrænar verðkannanir
Viðskiptaráðuneyti Fréttatilkynning Nr. 5/2007
Viðskiptaráðherra hefur ákveðið að fela Neytendastofu að vinna framkvæmdaáætlun um rafrænar verðkannanir. Vinnu við áætlunina skal lokið fyrir 1. júní 2008.
Vandaðar og fjölbreyttar verðkannanir stuðla að gagnsæi markaða og virkri samkeppni, almenningi til hagsbóta. Því er áríðandi að sátt sé um aðferðir, túlkun og framsetningu þeirra og að fleiri stoðum sé skotið undir verðkannanir á vörum og þjónustu.
Að undanförnu hefur viðskiptaráðherra átt fundi með helstu aðilum sem tengjast framkvæmd og túlkun verðkannana í landinu, þar á meðal Alþýðusambandi Íslands, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, talsmanni neytenda, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum atvinnulífsins og Félagi íslenskra stórkaupmanna. Ljóst er að skoðanir eru skiptar um heppilegasta fyrirkomulag verðkannana.
Neytendastofa setur leiðbeinandi verklagsreglur um öflun, meðferð og birtingu upplýsinga um verð, verðmyndun og viðskiptakjör. Við endurskoðun á gildandi reglum beinir viðskiptaráðherra þeim tilmælum til Neytendastofu að haft sé víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila, í því skyni að stuðla að sátt um verðkannanir. Ekki síst er varðar túlkun og framsetningu upplýsinga.
Brýnt er að hefja markvissa vinnu nú þegar við að þróa lagalegar og tæknilegar leiðir til að tryggja skilvirka miðlun á upplýsingum á milli söluaðila og neytenda til framtíðar. Að mati viðskiptaráðherra er mikilvægt að nýta upplýsingatæknina til hins ýtrasta við miðlun upplýsinga um verð og önnur viðskiptakjör til neytenda og kanna allar færar leiðir til þess.
Augljósir kostir því samfara eru nákvæmari og skjótari úrvinnsla upplýsinga auk þess sem tækifæri gefst á einstaklingsmiðuðum samanburði á verði og gæðum. Því hefur viðskiptaráðherra ákveðið að fela Neytendastofu að hefja vinnu við framkvæmdaáætlun um rafrænar verðkannanir. Við þá vinnu skal hún hafa samráð við hagsmunaaðila.
Reykjavík, 17. ágúst 2007.