Fundur með sendinefnd bandarískra fulltrúadeildarþingmanna
Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, átti í morgun, mánudaginn 20. ágúst, fund með sendinefnd bandarískra fulltrúadeildarþingmanna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Þingmennirnir, sem bæði eru úr Demókrataflokknum og Repúblikanaflokknum, eiga sæti í undirnefnd fjárlaganefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem fjallar um orku- og auðlindamál. Þingmennirnir voru áhugasamir um þann árangur sem Íslendingar hafa náð í notkun endurnýjanlegra orkugjafa og hafa mikinn hug á að efna til og auka samstarf milli Bandaríkjanna og Íslands á því sviði. Með í för voru starfsmenn nefndarinnar auk sendiherra Bandaríkjanna, Carol van Voorst.
Reykjavík 20. ágúst 2007