Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2007 Matvælaráðuneytið

Gjaldtaka fjármálafyrirtækja fyrir þjónustu og rafræn greiðslukerfi

Viðskiptaráðuneyti Fréttatilkynning Nr. 6/2007.

Viðskiptaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem hafi það verkefni að gera úttekt á lagaumhverfi að því er varðar viðskipti neytenda og banka í ljósi nútímaviðskiptahátta, einkum með tilliti til gjaldtöku fjármálafyrirtækja fyrir þjónustu í starfsemi sinni og rafrænna greiðslukerfa, s. s. vegna debet- og kreditkortafærslna.

Í starfi sínu yfirfari starfshópurinn lög og reglur er lúta að heimildum fjármálafyrirtækja til gjaldtöku. Sérstaklega hugi starfshópurinn að ýmsum gjöldum sem fjármálafyrirtæki krefjast fyrir þjónustu sína og forsendur þeirra, s. s. greiðslum ef neytendur fara yfir á reikningum sínum (fit-kostnaði), seðilgjöldum, innheimtukostnaði og kostnaði við greiðslukort. Hlutverk starfshópsins verður jafnframt að meta hvort ástæða sé til að lögfesta frekari reglur um notkun rafrænna greiðslukerfa.

Starfshópnum er ætlað að skila viðskiptaráðherra skýrslu, og eftir atvikum drögum að lagafrumvarpi, fyrir 1. janúar 2008.

Í nefndinni munu eiga sæti:

Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur, formaður

Axel Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður

Gísli Tryggvason, Talsmaður neytenda

Þá verður óskað eftir tilnefninum frá Neytendastofu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitinu í starfshópinn.

Reykjavík, 21. ágúst 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum