Hávaxtamyntir
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 23. ágúst 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Mikið hefur verið fjallað um hávaxtamyntir í tengslum við vaxtamunarviðskipti (e. carry trade) að undanförnu.
Eins og kunnugt er hefur Ísland ekki farið varhluta af áhrifum vaxtamunarviðskipta síðan þau hófust hér á landi á haustmánuðum 2005. Vaxtamunarviðskipti ganga út á að notfæra mismun í vaxtastigi landa, þ.e. taka lán í landi með lága vexti og fjárfesta í landi sem gefur háa vexti að því marki sem væntingar um gengisþróun leyfa. Íslenska krónan telst vera hávaxtamynt þar sem vextir hér á landi hafa verið háir vegna tímabundins ójafnvægis í tengslum við mikinn hagvöxt.
Ísland hefur þannig bæst við hóp ríkja á borð við Nýja?Sjáland, Tyrkland, Suður Afríku, Brasilíu og Ungverjaland sem öll eiga það sameiginlegt að búa við hátt vaxtastig og talsverð vaxtamunarviðskipti. Síðustu ár hefur fylgni hávaxtamynta aukist umtalsvert eins og sjá má á mynd. Þar sem vaxtamunarviðskiptin eru orðin áberandi áhrifaþáttur í gengisþróun þessara ríkja geta breytt skilyrði til slíkra viðskipta haft áhrif samtímis á hávaxtamyntir.
Ísland er oft flokkað með nýmarkaðsríkjum í umfjöllun um hávaxtamyntir. Sú flokkun er ekki viðeigandi í tilviki Íslands þar sem nýmarkaðsríki eru að öllu jöfnu miðlungs-/lágtekjuríki með skamma reynslu af markaðsbúskap og misvel mótað stofnanaumhverfi. Ísland er hins vegar hátekjuríki með þróað stofnanaumhverfi og ábyrga efnahagsstjórn.
Vera má að Ísland sé flokkað með nýmarkaðsríkjum í þessu tilliti af þeirri ástæðu að vaxtamunarviðskipti hófust á svipuðum tíma fyrir nokkrum árum og í nýmarkaðsríkjum á borð við Tyrkland. Hávaxtamyntir einskorðast því ekki við nýmarkaðsríki en hátekjulönd á borð við Nýja-Sjáland og Ástralía hafa einnig haft hærri vexti en t.d. Bandaríkin og langa reynslu af vaxtamunarviðskiptum.
Stýrivextir - ársmeðaltöl (%)
Land |
2002
|
2003
|
2004
|
2005
|
2006
|
---|---|---|---|---|---|
Tyrkland |
55,9
|
42,4
|
26,6
|
18,8
|
19,7
|
Ungverjaland |
10,4
|
9,7
|
12,4
|
8,2
|
7,7
|
Ísland |
8,1
|
5,3
|
6,0
|
9,0
|
11,7
|
Nýja-Sjáland |
5,4
|
5,3
|
5,8
|
6,8
|
7,3
|
Bandaríkin |
1,7
|
1,1
|
1,3
|
3,1
|
4,9
|