Breytingar á siglingalögum til umsagnar
Á vegum samgönguráðuneytisins hefur verið unnið frumvarp til breytinga á siglingalögum númer 34/1985. Lúta breytingar einkum að takmörkunarfjárhæðum vegna ábyrgðar útgerðarmanns.
Hafin er vinna við heildarendurskoðun siglingalaganna. Verða meðal annars endurskoðaðar ábyrgðartakmörkunarreglur þeirra með það í hug að tryggja þá meginreglu að sá sem ber ábyrgð á tjóni sem fellur undir gildissvið siglingalaganna skuli bæta það að fullu. Slík heildarendurskoðun er viðamikið verk og tímafrekt og því var ákveðið að leggja fyrst fram frumvarpið sem hér er kynnt. Er því ætlað að aðlaga IX. kafla siglingalaga að þeim breytingum sem gerðar voru árið 1996 á alþjóðasáttmála frá árinu 1976. Gerir frumvarpið ráð fyrir sambærilegum ábyrgðartakmörkunarreglum og eru í dönsku, finnsku og sænsku siglingalögunum.
Breytingarnar felast fyrst og fremst í hækkun takmörkunarfjárhæða og leiða því til betri stöðu tjónþola en samkvæmt gildandi lögum. Auk þess er lagt til að í stað rúmlesta (brúttórúmlesta) sem viðmið um stærð skips sé miðað við tonn (brúttótonn). Þá er lagt til að um vexti fari samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001.
Þeir sem óska eftir að veita umsögn um breytingarnar geta sent erindi sín til samgönguráðuneytisins á tölvunetfangið [email protected] fyrir 5. september næstkomandi.
Frumvarpsdrögin er að finna hér.