Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Launavísitala í júlí

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 23. ágúst 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í vikunni birti Hagstofa Íslands mælingu á launavísitölu (LVT) fyrir júlí.

Mældist vísitalan 319,8 stig sem er 0,25% hækkun frá fyrra mánuði, en það er nokkru minni hækkun en sést hefur undanfarna mánuði. Miðað við júlí 2006, þegar LVT var 295,4 stig, nemur hækkunin 8,3%, sem er aðeins minni hækkun en á fyrri hluta ársins, þegar hún nam um 10% frá sama tíma á fyrra ári.

Áframhaldandi mikil hækkun launavísitölu í ár endurspeglar umtalsverða og aukna spennu á vinnumarkaði. Atvinnuleysi mælist nú um 0,9% af vinnuafli, sem er lítið atvinnuleysi í sögulegu samhengi. Sú þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir mjög aukinn aðflutning erlends vinnuafls til Íslands á undanförnum árum.

Það sem skiptir mestu máli fyrir launþega er hve mikið laun þeirra hækka að raungildi. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir hefur kaupmáttur launa aukist á bilinu 1% til 5% undanfarin ár.

Frá miðju síðasta ári hafði aukin verðbólga í kjölfar snarprar gengislækkunar áhrif til að draga úr kaupmáttaraukningunni. Í ár hefur verðbólgan tekið að minnka og launahækkanir skilað sér í meiri kaupmáttaraukningu. Þannig nam aukning kaupmáttar launa í júlí 4,3% frá sama mánuði árið áður.

Kaupmáttaraukning launa



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta