Fundur með sérfræðingum frá Europol
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hélt í dag fund þar sem sérfræðingar frá Europol kynntu rannsóknir á ávinningi brota, haldlagningu og upptöku eigna, sem og peningaþvætti, með fulltrúum frá ráðuneytum og stofnunum sem fást við mál af þessum toga. Sérfræðingarnir komu hingað til lands fyrir milligöngu Arnars Jenssonar, fastafulltrúa Íslands hjá Europol, og embættis ríkislögreglustjóra.
Fyrirlesararnir, þau Vladmír Jízdný, sérfræðingur í peningaþvætti, og Jill Thomas, sérfræðingur í upptöku ávinnings, hafa bæði mikla starfsreynslu á þessum sviðum. Þau starfa hjá Europol við deild sem heitir Serious Crime 4 (SC4) – Financial and Property Crime Unit. Á fundinum kynnti Arnar Jensson einnig uppbyggingu og starfsemi Europol. Fjallað var um lagaumhverfið í þessum málaflokkum og samstarf á víðum grundvelli, m.a. með hliðsjón af því hvort lagabreytinga sé þörf hér á landi.