Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2007 Matvælaráðuneytið

Nefnd sem fara á yfir lagaumhverfi sparisjóðanna.

Fréttatilkynning Viðskiptaráðuneyti Nr. 7/2007

Mikil gerjun hefur verið hin síðari ár á íslenskum fjármálamarkaði. Hafa sparisjóðirnir ekki farið varhluta af þessum hræringum. Árið 2002 var ráðist í miklar breytingar á lagaumhverfi sparisjóðanna þegar samþykktar voru breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem gerðu sparisjóðum kleift að breyta félagaformi sínu í hlutafélög. Til dagsins í dag hefur enginn sparisjóður valið þessa leið fyrir utan Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, sem hefur samþykkt á stofnfjáreigendafundi stofnun hlutafélags um starfsemi sjóðsins.  

 

Nokkur umræða hefur verið um að ákvæði gildandi laga um starfsemi sparisjóðanna hafi ekki virkað sem skyldi, m.a. þau sem heimila breytingu sparisjóðs í hlutafélag, viðskipti með stofnfjárhluti og útgáfu nýs stofnfjár.

 

Til þess að fara yfir gildandi lagaumhverfi sparisjóðanna og gera tillögur til breytinga eftir atvikum hefur viðskiptaráðherra í dag óskað eftir tilnefningum í nefnd sem fara á heildstætt yfir ákvæði VIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki með það að markmiði að lagaumhverfi sparisjóðanna verði ekki þessum fjármálafyrirtækjum hamlandi í ört vaxandi samkeppni á fjármálamarkaði.

 

Hefur verið óskað eftir að Fjármálaeftirlitið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra sparisjóða og Samtök fjármálafyrirtækja taki þátt í nefndarstarfinu með sérfræðingum viðskiptaráðuneytisins. Formaður nefndarinnar verður Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu. Aðrir nefndarmenn skipaðir án tilnefningar verða Tanya Zharov, lögfræðingur hjá Íslenskri Erfðagreiningu, og Jóhann Antonsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla. Er við það miðað að nefndin ljúki störfum fyrir 1. júní á næsta ári.

 

 

Reykjavík, 28. ágúst 2007.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum