Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2007 Matvælaráðuneytið

Skipun verkefnisstjórnar til að undirbúa rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða

Fréttatilkynning Iðnaðarráðuneyti Nr. 7/2007.

Iðnaðnaðarráðherra hefur í samráði við umhverfisráðherra skipað verkefnisstjórn til að undirbúa rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í verkefnisstjórnina hafa verið skipaðir:

Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, skipuð sem formaður verkefnisstjórnar af iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra sameiginlega.

Elín R. Líndal, oddviti Húnaþings vestra, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, tilnefnd af Umhverfisstofnun.

Eydís Aðalbjörnsdóttir, verkefnisstjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar.

Freysteinn Sigurðsson, jarðfræðingur, tilnefndur af náttúruverndarsamtökum.

Hjörleifur B. Kvaran, aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, tilnefndur af Samorku.

Stefán Arnórsson, prófessor, tilnefndur af iðnaðarráðherra.

Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, tilnefnd af forsætisráðherra.

Þorkell Helgason, orkumálastjóri, tilnefndur af Orkustofnun.

Þorsteinn Tómasson, skrifstofustjóri, tilnefndur af landbúnaðarráðherra.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor, tilnefnd af umhverfisráðherra.

Starfsmenn verkefnisstjórnarinnar verða Hreinn Hrafnkelsson, sérfræðingur í iðnaðarráðuneyti og Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneyti.

Markmið rammaáætlunarinnar er að skapa faglegar forsendur fyrir ákvörðun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðhitasvæði. Í áætluninni skal leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita og áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina og meta áhrif á hagsmuni allra þeirra sem nýtt geta þessi sömu gæði.

Skipulag rammaáætlunarinnar er þríþætt. Heildarstjórn verkefnisins er í höndum verkefnisstjórnar, en meginhlutverk hennar er að semja tillögu að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Undir verkefnisstjórn starfa faghópar skipaðir af sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem ætlað er að fara yfir virkjunarkosti hver frá sínum sjónarhóli, meta þá með stigagjöf og gera tillögur til verkefnisstjórnar. Fjöldi faghópa og skipan þeirra verður ákveðin af verkefnisstjórninni. Loks verður hagsmuna- og áhugaaðilum boðin þátttaka í sérstökum vettvangi sem ætlaður er til samráðs vegna verkefnisins.

Verkefnisstjórnin skal hafa víðtækt samráð við almenning og alla hagsmunaaðila á starfstíma sínum, m.a. með kynningarfundum og sérstakri vefsíðu með upplýsingum fyrir almenning og hagsmunaaðila.

Verkefnisstjórnin skal ljúka störfum og skila skýrslu til iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra með heildarmati og flokkun á þeim kostum sem teknir hafa verið til umfjöllunar fyrir 1. júlí 2009.

Iðnaðarráðherra mun á grundvelli niðurstaðna skýrslu verkefnisstjórnar og að höfðu samráði við umhverfisráðherra og verkefnisstjórnina leggja fyrir Alþingi fyrir lok ársins 2009 tillögu að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðvarmasvæði. Þetta verkefni er því mikilvægur hluti af því markmiði ríkisstjórnarinnar að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða, sem fjallað er um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Reykjavík, 28. ágúst 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta