Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2007 Dómsmálaráðuneytið

Dóms- og kirkjumálaráðherra heimsækir LRS: Öflug starfsemi embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og umbætur í rekstri

Ráðherra fundar á Suðurnesjum.
Ráðherra í heimsókn á lögreglustöðinni í Keflavík.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, heimsótti embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum miðvikudaginn 29. ágúst. Undir leiðsögn Jóhanns R. Benediktssonar lögreglustjóra fór ráðherrann um starfsstöðvar lögreglunnar og tollgæslunnar í Grænási, Keflavík, á Keflavíkurflugvelli og í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum (LRS) varð til 1. janúar 2007, þegar löggæsla og tollgæsla á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli voru sameinaðar undir einni stjórn.

„Keflavíkurflugvöllur var varnarsvæði, á meðan varnarliðið var hér,“
segir Björn „og laut þar með forræði eins ráðuneytis, utanríkisráðuneytisins. Eftir að varnarliðið fór héðan hefur verið unnið að því að flytja forræði mála til einstakra ráðuneyta í samræmi við verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Lögreglumálin hafa flust til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, tollamálin til fjármálaráðuneytis og flugmálin eru á leið til samgönguráðuneytis.“

Að sögn Björns Bjarnasonar hefur verið lögð rík áhersla á að laga starfsemi LRS sem best að kröfum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og almennum starfsramma lögregluembætta. Fyrr á árinu hafi ráðuneytið falið sérstökum starfshópi undir formennsku Ágústs Jónssonar, ráðgjafa, og með þátttöku Arnars Þór Mássonar frá fjármálaráðuneyti og Péturs Vilhjálmssonar frá ríkisendurskoðun að starfa með yfirstjórn LRS að breytingum á innviðum embættisins. Tilgangur ferðarinnar nú hafi verið að ræða framvindu þeirrar miklu vinnu og taka ákvarðanir um næstu skref.

Ákvarðanir um næstu skref

„Mál þróast hratt á þessu svæði,“ sagði dómsmálaráðherra, „flugvallarstarfsemin er í örum vexti og nú er að verða til nýr byggðakjarni ungs fólks í húsakynnum á gamla varnarsvæðinu. Hin almenna löggæsla á Suðurnesjum verður að taka mið af fjölgun íbúa þar. Innan LRS starfar fjölmennasta lið tollvarða á landinu utan Reykjavíkur og innflutningur á vörum um Keflavíkurflugvöll hefur vaxið um mörg hundruð prósent á fáeinum árum. Þá aukast kröfur um landamæravörslu og öryggisgæslu í réttu hlutfalli við fjölgun farþega í flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem tekið hefur stakkaskiptum á skömmum tíma.“

Ráðherra segir að starfsemi LRS sé öflug og mikil. Höfuðmáli skipti að tryggja LRS áfram styrk og sveigjanleika til að laga sig að þessum aðstæðum. Hann segir að á þeim fáu mánuðum, sem liðnir eru síðan embættið var stofnað, hafi stjórn fjármála verið gjörbreytt, og reksturinn sé nú fjárhagslega gagnsær og umtalsverð rekstrarhagræðing hafi náðst. Næsta skref sé að gera árangursstjórnunarsamning við embættið. Fjármálaráðuneytið þurfi að koma að gerð hans, þar sem markmið tollgæslu séu sett af því, auk dóms- og kirkjumálaráðuneytis og embættis ríkislögreglustjóra.

Sameiginleg markmið

Björn segir brýnt, að allar ákvarðanir um aukin umsvif í flugmálum og starfsemi flugstöðvar Leifs Eiríkssonar séu teknar í nánu samstarfi við dóms- og kirkjumálaráðuneytið og lögreglustjórann á Suðurnesjum. Sé ekki lagt á ráðin um framkvæmd á nauðsynlegum öryggisreglum, njóti flugstöðin og flugvöllurinn ekki þess trausts, sem er óhjákvæmilegt til að starfsemi þar vaxi og dafni. Telur ráðherrann að þetta verði best tryggt með því að samgönguráðuneytið og dóms- og kirkjumálaráðuneytið setji sameiginleg markmið, enda flytjist yfirstjórn flugrekstrar til samgönguráðuneytisins í samræmi við verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Þá þurfi áfram að tengja tekjustreymi til LRS í samræmi við umsvif á flugvellinum. „Hinn öri vöxtur má ekki verða til þess að slakni á landamæra- eða tolleftirliti,“ segir Björn.

Starfsstöðvar embættis lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli eru dreifðar og að hluta til í gámum til bráðabirgða. Ráðherra segir þetta að sjálfsögðu ekki viðunandi og þess vegna sé brýnt að huga að nýjum húsakosti fyrir embættið í samráði við fjármálaráðuneytið, þar sem fyrir utan starfsemi þess verði gert ráð fyrir aðstöðu fyrir hælisleitendur og öruggu húsnæði fyrir framleiðslu á vegabréfum og öðrum opinberum skírteinum.

Auk ráðherra og ráðgjafahópsins tóku Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, og Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu, þátt í fundunum með starfsmönnum LRS.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta