Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 30. ágúst 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í nýbirtri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) (PDF 652 KB) um efnahagsástandið á Íslandi og aðgerðir stjórnvalda á sviði opinberrar fjármálastjórnar kemur fram það mat sérfræðinga IMF að stjórnvöld telji takmarkaða þörf fyrir aukið aðhald í hagstjórninni miðað við fyrirliggjandi hagvaxtarspár.
Þetta er ekki rétt túlkun á sjónarmiðum stjórnvalda. Lögð hefur verið áhersla á að sjálfvirkir sveiflujafnarar, sem tengjast teygni skatttekna og langtímamarkmiðum um raunvöxt útgjalda, skili auknu aðhaldi ef eftirspurnarþrýstingur reynist meiri en reiknað hefur verið með. Sú hefur einnig verið reyndin.
Afkoma ríkissjóðs hefur það sem af er ári batnað umtalsvert umfram áætlun eins og kemur fram í meðfylgjandi greinargerð. Skatttekjur hafa aukist mikið í uppsveiflunni á meðan haldið hefur verið aftur af vexti útgjalda. Þá er nefnt að stjórnvöld sjái lítið svigrúm til að auka aðhald vegna aðstæðna á vinnumarkaði.
Rétt er að þrýstingur á vinnumarkaði gerir erfiðara fyrir að ná markmiðum um raunvöxt samneysluútgjalda, vegna þess að þau eru að stærstum hluta laun og kaupmáttur á Íslandi hefur aukist ríflega undanfarin ár. Þrátt fyrir það, eins og áður segir, hafa sjálfvirkir sveiflujafnarar fengið fullt svigrúm til starfa og með því hafa þeir dregið fjármuni úr umferð í einkageiranum á meðan eftirspurn hefur gefið tilefni til. Það er í samræmi við niðurstöður rannsókna á sveiflujöfnun í opinberum fjármálum OECD-ríkja sem sýna að hún hafi verið með mesta móti á Íslandi undanfarin ár.