Þátttaka Íslands innan Sameinuðu þjóðanna sífellt að aukast
Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Hjálmar W. Hannesson sendiherra, hefur verið kjörinn einn af varaforsetum 62. allsherjarþings SÞ sem hefst í september næstkomandi. Kjörnir varaforsetar allsherjarþingsins eru sextán talsins og koma tvö sæti í hlut vesturlandahópsins sem að þessu sinni féllu í skaut fastafulltrúa Íslands og Tyrklands. Auk kjörnu varaforsetanna eiga þau fimm ríki sem hafa fast sæti í öryggisráðinu einn varaforseta hvert.
Sem varaforseti allsherjarþingsins mun fastafulltrúi Íslands taka þátt í starfi nefndar allsherjarþingsins sem ákveður dagskrá þess og er því um virkt hlutverk að ræða. Einnig mun fastafulltrúi Íslands koma til með að stýra einhverjum fundum þingsins og hlaupa í skarð forseta þegar svo ber undir. Áður hafa fastafulltrúarnir Thor Thors, Tómas Á. Tómasson og Þorsteinn Ingólfsson gegnt embætti varaforseta allsherjarþingsins.
Fastafulltrúi Íslands gegnir einnig stöðu varaforseta efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) fyrir hönd vesturlandahópsins. Í janúarmánuði var hann endurkjörinn í þá stöðu og situr því í stjórnarnefnd ráðsins annað árið í röð. Ísland á nú sæti í efnahags- og félagsmálaráði SÞ fyrir tímabilið 2005-2007.
Ísland hefur getið sér gott orð innan Sameinuðu þjóðanna fyrir jákvæða og uppbyggilega framgöngu. Aðaláherslumál Íslands innan Sameinuðu þjóðanna hafa verið virðing fyrir mannréttindum, efling lýðræðis, sjálfbær þróun, málefni hafsins, umhverfismál almennt, barátta gegn fátækt, þróunarsamvinna, friðargæsla og virðing fyrir grundvallarreglum þjóðaréttar.