Fréttatilkynning iðnaðarráðuneyti
Í tilefni af beiðni Landverndar og SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, um að fram fari opinber rannsókn á vegum umhverfisnefndar og iðnaðarnefndar Alþingis vegna útgáfu á leyfi til rannsókna í Gjástykki, dags. 10. maí sl., vill ráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:
Umsókn Landsvirkjunar um rannsóknarleyfi í Gjástykki barst ráðuneytinu 28. október 2004 og var þegar í stað, í samræmi við ákvæði laga, sett í eðlilegan umsagnarferil. Leitað var umsagna umhverfisráðuneytis, Orkustofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Aðaldælahrepps, Norðurþings og Skútustaðahrepps.
Bréf Landsvirkjunar, dags. 8. maí 2007, sem vísað er til í erindi samtakanna, var því ítrekun á umsókn, sem legið hafði fyrir í vinnsluferli innan ráðuneytisins í 30 mánuði. Þegar leyfið var veitt lágu allar umsagnir fyrir og í engri þeirra var mælt gegn veitingu þess.
Það er því rangt að ráðuneytið hafi ekki uppfyllt eðlilega umsagnar- og rannsóknarskyldu sína í samræmi við lög, þegar leyfið var veitt.
Reykjavík, 31. ágúst 2007.