Styrkir veittir í tilefni Evrópuársins 2007
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra veitti styrki í tilefni Evrópuársins 2007, Árs jafnra tækifæra, í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Leitað var eftir verkefnum sem hafa það markmið að vinna að almennri og víðtækri vitundarvakningu í samfélaginu um mismunun á grundvelli kyns, öldrunar, kynþáttar, fötlunar, kynhneigðar eða trúar í samræmi við markmið ársins. Alls hlutu tíu verkefni frá félagsamtökum styrk að andvirði 2.000.000 króna. Verkefnin sem hlutu styrki í dag voru kynnt í Þjóðmenningarhúsinu af fulltrúum félagasamtaka.
Eftirfarandi verkefni hlutu styrk frá félagsmálaráðuneytinu:
Mannréttindaskrifstofa Íslands hlaut styrk í fjögur verkefni:
- Málstofu um mannréttindi aldraðra á Íslandi.
- Málstofu um mannréttindi transgender-einstaklinga.
- Fræðslu gegn misrétti.
- Plakataherferð gegn mismunun.
Halaleikhópurinn hlaut styrk til uppsetningar á leikritinu Gaukshreiðrinu.
Kvennaathvarfið hlaut tvo styrki, annars vegar til kynningarherferðar á vegum Kvennaathvarfsins og hins vegar í gerð á kynningarmyndbandi um Kvennaathvarfið.
Ísland Panorama hlaut styrk í verkefnið Innst við beinið erum við öll eins.
Femínistafélag Íslands hlaut styrk til ráðstefnunnar Samræða um margbreytileikann.
Barnaheill og Háskólinn á Akureyri hlutu styrk í verkefnið Gegn mismunun á öllum skólastigum.