Háskólafundaröð: Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningur
„Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningur" er yfirskrift háskólafundaraðar sem íslensk stjórnvöld efna til í vetur í samvinnu við alla átta háskóla landsins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kynnti háskólafundaröðina, ásamt rektorum háskólanna, á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu fyrr í dag.
Markmið háskólafundaraðarinnar er að hvetja til aukinnar upplýstrar umræðu um alþjóðamál á Íslandi. Á fundunum, sem eru öllum opnir, verður lögð áhersla á stöðu og hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi. Þá verður einnig fjallað um þátttöku Íslands í alþjóðastarfi og einstök verkefni, þ. á m. framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Viðfangsefni fundanna munu tengjast sérsviði háskólanna, en skipulagning og fundarefni er alfarið á þeirra vegum, og munu fræðimenn og nemendur skólanna taka þar virkan þátt. Það er ekki síst markmið fundaraðarinnar að styrkja tengsl milli utanríkisráðuneytisins og háskólasamfélagsins, í þágu öflugs stefnumótunarstarfs á sviði alþjóða- og utanríkismála.
Fundaröðin hefst föstudaginn 7. september nk. með opnunarmálþingi í Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Alþjóðasamstarf á 21. öld og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna" kl. 11:50 - 13:15. Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra munu flytja þar ávörp. Í framhaldinu munu fræðimennirnir Alyson Bailes, Baldur Þórhallsson og Björg Thorarensen halda fyrirlestra. Fundarstjóri verður Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor. Í kjölfarið verður efnt til funda í öllum háskólum landsins þar sem fjölmörg svið alþjóðamála verða til umfjöllunar sbr. meðfylgjandi yfirlit. Fundaröðinni mun ljúka á vordögum 2008 með ráðstefnu um Ísland og alþjóðamál.
Með háskólafundaröðinni taka íslensk stjórnvöld höndum saman með háskólasamfélaginu í landinu. Fundirnir eru öllum opnir og er vonast til að þeir verði til þess að efla umræðu um alþjóðamál og skerpa sýn á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, sem og á erindi og ávinning Íslendinga af alþjóðlegu samstarfi.
Háskólafundaröð, dagsetning funda og umræðuefni
Fjölmörg viðfangsefni tengd Íslandi á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningi - verða tekin fyrir. Einnig verður efnt til málstofa og vinnustofa með þátttöku fræðimanna, nemenda og sérfræðinga á sviði utanríkismála í háskólunum. Utanríkisráðherra, og aðrir ráðherrar, munu taka þátt í háskólafundunum eftir því sem mögulegt er. Nánari tímasetning og dagskrá funda verður auglýst síðar.
Nánari upplýsingar:
Háskólafundir
September Háskóli Íslands. Alþjóðasamstarf á 21. öld og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Október Háskólinn í Reykjavík. Ísland á alþjóðavettvangi - Skiptum við máli?
Nóvember Háskólinn á Bifröst. Íslendingar í friðargæslu og hjálparstarfi.
Desember Háskólinn á Akureyri. Mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands - hvers vegna?
Janúar Landbúnaðarháskóli Íslands. Átakalínur í framtíðinni - geta Íslendingar komið að liði í baráttunni gegn matvælaskorti, þurrkum og loftslagsbreytingum?
Febrúar Listaháskóli Íslands. Menningarleg fjölbreytni - staða og möguleikar íslenskrar menningar í vaxandi hnattvæðingu.
Mars Kennaraháskóli Íslands. Menntamál, íslenska leiðin og tækifæri í þekkingarmiðlun (óstaðfest)
Apríl Háskólinn á Hólum. Hvernig á íslensk náttúra, menning og þekking erindi til alþjóðasamfélagsins?
Málstofa
Desember Þann 7. desember mun Háskóli Íslands efna til Rannsóknarmálstofu, á vettvangi Alþjóðamálastofnunar og rannsóknaseturs um smáríki, þar sem viðfangsefnið verður: Ísland í Öryggisráðið - og hvað svo ? Málstofan er liður í ráðstefnu á sviði félagsvísinda.
Haustönn HÍ mun setja upp sérstakt námskeið fyrir nemendur skólans þar sem hugsanleg seta Íslands í Öryggisráðinu verður skoðuð í samstarfi við sérfræðinga utanríkisráðuneytis og aðra aðila.
Ráðstefna
Maí 2008 „Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningur". Ráðstefna með þátttöku innlendra og erlendra fyrirlesara, í Reykjavík vorið 2008.