Hoppa yfir valmynd
6. september 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur í sameiginlegu íslensk-kínversku efnahags- og viðskiptanefndinni

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Yu Guangzhou
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Yu Guangzhou, aðstoðarviðskiptaráðherra Kína

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 94/2007

Í dag var haldinn sjötti fundur í sameiginlegu íslensk-kínversku efnahags- og viðskiptanefndinni. Formaður kínversku sendinefndarinnar var Yu Guangzhou, fyrsti aðstoðarviðskiptaráðherra Kína, en auk hans var sendinefndin skipuð embættismönnum frá m.a. viðskiptaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti auðlindaráðuneyti og sendiherra Kína á Íslandi, auk annarra starfsmanna sendiráðsins. Formaður íslensku sendinefndarinnar var Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. Íslenska sendinefndin var skipuð sendiherra Íslands í Kína, embættismönnum frá utanríkisráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og samgönguráðuneyti, auk starfsmanna Fiskistofu, Vinnumálastofnunar og fulltrúa Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum var m.a. rætt um tvíhliða samstarf á sviði sjávarútvegs, jarðvarma, hátækniiðnaðar, ferðamála og menningar. Ennfremur var rætt um gang fríverslunarviðræðna Íslands og Kína og hagsmuni fyrirtækja í ríkjunum tveimur.

Eftir fundinn undirrituðu Vodafone Ísland og kínverska fyrirtækið Huawei samning um kaup á tæknibúnaði vegna uppbyggingar Vodafone á langdrægu GSM farsímakerfi. Jafnframt undirrituðu Útflutningsráð Íslands og viðskiptaþróunarskrifstofa kínverska viðskiptaráðuneytisins viljayfirlýsingu um samstarf.

Í kjölfar fundarins átti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra fund með Yu Guangzhou, aðstoðarviðskiptaráðherra Kína. Á fundinum voru helstu tvíhliða mál á sviði viðskipta og menningar rædd, m.a. fríverslunarviðræður ríkjanna. Lögð var áhersla á áframhaldandi góð samskipti ríkjanna á þessum sviðum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta