Nýr loftferðasamningur við Malasíu og breyting á loftferðasamningi við Rússland
Fulltrúar Íslands og Malasíu hafa áritað fyrsta loftferðasamninginn sem gerður er milli landanna. Samningurinn tekur gildi þegar við áritun.
Samninginn árituðu Helgi Ágústsson sendiherra og P. Chandrasekaran vara ráðuneytisstjóri 3. september síðastliðinn í Kuala Lumpur í Malasíu. Auk Helga voru viðstödd lokaviðræður um samninginn af hálfu Íslands þau Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu og Ástríður Scheving Thorsteinsson, lögfræðingur í ráðuneytinu.
Í samningnum sem felast mjög víðtæk flugréttindi fyrir flugrekendur ríkjanna. Samningurinn tekur til áætlunar- og leiguflugs án takmarkana á tíðni og flutningsmagni til ákvörðunarstaða í ríkjunum auk áfanga- og viðkomustaða á flugleiðinni. Samningurinn við Malasíu styrkir möguleika íslenskra flugrekenda sem hafa sinnt og vilja sinna verkefnum í þessum heimshluta.
Þá var þann 17. ágúst sl. var gengið frá breytingu á viðauka við núgildandi loftferðasamning Íslands og Rússlands frá 1998. Við samninginn var bætt við nýjum áfangastað í Rússlandi, St. Pétursborg, auk annarra breytinga sem gerðar voru á viðauka. Nýr viðauki samningsins hefur þegar tekið gildi.
Íslensk stjórnvöld hafa undanfarin misseri lagt áherslu á að fjölga loftferðasamningum við ýmis fjarlæg ríki, einkum í Mið-Austurlöndum, Austurlöndum fjær og og Suður-Ameríku. Aukin starfsemi íslenskra flugfélaga á erlendum vettvangi ýtir undir gerð loftferðasamninga við sífellt fleiri ríki. Loftferðasamningar tryggja réttindi og stöðu flugfélaga samningsaðila til flugs milli aðildarríkja og þriðju ríkja.