Breytingar á lánaumsýslu ríkissjóðs
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 6. september 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samningur hefur verið gerður við Seðlabanka Íslands um að hann annist útgáfu innlendra markaðsverðbréfa ríkissjóðs sem Lánasýsla ríkisins hefur haft með höndum en bankinn annast nú þegar umsýslu erlendra lána ríkissjóðs.
Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku fjármálaumhverfi og stöðu ríkisins á lánamarkaði er nú talið mögulegt að framkvæma lánaumsýslu ríkissjóðs með hagkvæmari hætti en verið hefur með því að flytja verkefni stofnunarinnar til Seðlabanka Íslands.
Í Danmörku og Noregi sjá seðlabankar landanna um lánaumsýslu ríkissjóðs á grundvelli samninga milli fjármálaráðuneytis og þeirra. Helstu kostir þess að hafa heildarumsjón lánamála ríkissjóðs á einum stað eru að með því fæst betri yfirsýn og skilvirkari lána-, gjaldeyris- og lausafjárstýring og hagræðing næst hvað varðar fastan kostnað og nýtingu starfsmanna. Þar sem eitt meginhlutverk Seðlabankans snýr að peningamálastjórnun, sem þarf ekki alltaf að fara saman við hagkvæma lánastýringu ríkissjóðs, er í samningnum við Seðlabankann skýrt kveðið á um verkskiptingu milli aðila og um ákvörðunarvald fjármálaráðuneytisins í lánamálum og endanlegt úrslitavald ráðuneytisins gagnvart framkvæmd samningsins. Samningurinn tekur gildi 1. október nk. Þá hættir Lánasýsla ríkisins starfsemi en stofnunin verður síðan formlega lögð niður með lögum.
Markmið samningsins við Seðlabanka er að stuðla að hagkvæmri og vandaðri lánaumsýslu fyrir ríkissjóð sem byggist á stefnumörkun fjármálaráðuneytisins í lánamálum. Í því felst að halda innlendum og erlendum vaxta- og fjármagnskostnaði ríkisins í lágmarki með því að leita hagkvæmra fjármögnunarleiða fyrir ríkissjóð innanlands sem erlendis. Einnig að dreifa gengis-, vaxta- og verðlagsáhættu vegna skulda ríkissjóðs á sem hagkvæmastan hátt og draga eins og kostur er úr áhættu ríkissjóðs vegna ábyrgða og endurlána.
Ábyrgð á stjórn lánamála ríkisins verður, eins og áður segir, í höndum fjármálaráðuneytisins. Fjármálaráðuneytið tekur ákvarðanir um skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs, greiðslu lána ríkisins og lausafjárstýringu ríkissjóðs. Ráðuneytið ákvarðar jafnframt ávöxtunarkröfu tekinna tilboða í útboðum ríkisverðbréfa, tekur ákvarðanir um uppbyggingu einstakra lánaflokka, tímalengd og eiginleika þeirra, uppkaup flokka og/eða gerð skiptasamninga og annað það er fram kemur í samningnum. Seðlabankinn sér um framkvæmd lánamála og skuldstýringu í umboði fjármálaráðuneytis og í samræmi við viðmiðunarreglur sem settar eru af ráðuneytinu. Einnig ber Seðlabankinn ábyrgð á að lántökur og skuldstýring sé í samræmi við stefnu sem mótuð er af ráðuneytinu.