Vinnuhópur um stuðning við nemendur í framhaldsskólum sem hafa annað tungumál en íslensku
Menntamálaráðherra skipaði nýlega starfshóp til að gera tillögur til stuðnings nemendum í framhaldsskólum sem hafa annað móðurmál en íslensku. Hópurinn hefur unnið að úttekt á stöðu umræddra nemenda með það að leiðarljósi að bæta aðstöðu þeirra til framhaldsnáms. Að tillögu hópsins hefur verið stofnaður sjóður til að styðja með sértækum hætti kennslu í íslensku fyrir þá nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku. Sjóðurinn skal veita fjárframlög umfram reiknilíkan til sérstakra aðgerða í íslenskukennslu fyrir nemendur framhaldsskóla með annað móðurmál en íslensku. Þær aðgerðir sem sjóðnum er einkum ætlað að styrkja eru:
- Stuðningskennsla fyrir einstaka nemendur eða smærri hópa.
- Skipulagning og framkvæmd sérstakra námsúrræða fyrir einstaka nemendur eða hópa.
- Þjálfun daglegra samskipta.
- Fræðsla fyrir kennara í að kenna íslensku sem erlent tungumál.
Framhaldsskólar geta sótt um styrki úr sjóðnum tvisvar á ári og er fyrsti umsóknarfrestur um styrki til 15. september 2007.
Menntamálaráðherra hefur einnig ráðið Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrverandi alþingismann, sem verkefnastjóra yfir málaflokknum og mun hún vinna með starfshópnum að tillögugerð og úrbótum í menntunarmálum fyrir þá nemendur sem eiga sér annað móðurmál en íslensku.