Hoppa yfir valmynd
12. september 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna samdráttar í þorskafla

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 17/2007

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr neikvæðum áhrifum af tímabundnum samdrætti í aflamarki þorsks taka mið af því að á þessu stigi málsins er ekki hægt að segja fyrir um hver þau muni verða nema í mjög almennum atriðum.

Af þeim sökum er hluti þeirra ákvarðana sem nú eru kynntar ekki endanlega staðsettar eða tímasettar og munu þær skýrast betur er líður á fiskveiðiárið og áhrif minnkandi þorskafla munu koma betur í ljós.

Við undirbúning þeirra tillagna sem nú eru kynntar hafði Byggðastofnun í samvinnu við atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni samband við fjölda forsvarsmanna útgerða á landinu og komu m.a. eftirfarandi niðurstöður í ljós :

  1. Ekki er líklegt að til fjöldaatvinnuleysis komin neins staðar á næstu mánuðum, hvorki hjá sjómönnum né landverkafólki.
  2. Mörg fyrirtæki munu bíða fram yfir áramót hvernig mál þróast. Fyrirtækin munu reyna að komast hjá uppsögnum í lengstu lög.
  3. Búast má við að skipum verði lagt fyrr og lengur á þessu fiskveiðiári en verið hefur og fiskvinnsluhús muni sömuleiðis loka fyrr og lengur en fyrri ár.

Aðgerðir stjórnvalda til að koma til móts við afleiðingar tímabundins kvótasamdráttar skiptast í verkefni sem ætlað er að hafa bein áhrif strax og ýmsar aðgerðir sem bæta stöðu sjávarbyggðanna til lengri tíma litið. Aðgerðirnar snúa að einstaklingunum, að fyrirtækjunum og sveitarfélögum.

Að því er einstaklingana varðar verður til skemmri tíma gripið til aðgerða þar sem leitað verður eftir því að skapa störf strax og ljóst er að til uppsagna kemur m.a. verkefni við byggingu innviða svo sem samgöngur og fjarskipti, gert verður átak í viðhaldi opinberra mannvirkja og hrundið af stað áformum um tölvuskráningu gagna. Jafnframt verður boðið upp á fjölda menntunartækifæra sem geta gert fólki kleift að auka möguleika sína á vinnumarkaði í þeim síbreytilegu aðstæðum sem þar eru.

Að því er fyrirtækin varðar verður annars vegar gripið til aðgerða sem gera Byggðastofnun betur í stakk búna til að leysa vanda þeirra fyrirtækja í sjávarútvegi sem til hennar leita en hins vegar verður stofnað til viðræðna við viðskiptabankana og önnur fjármálafyrirtæki um það með hvaða hætti þeir geta tekið þátt í þessu átaki bæði hvað varðar núverandi viðskipti sjávarútvegsfyrirtækja við viðskiptabankana en einnig hvað varðar möguleg verkefni fjármálafyrirtækja sem unnt er að vinna á landsbyggðinni. Þá verður svigrúm fiskvinnslufyrirtækja aukið til að halda starfsfólki á launaskrá með því að færa hámark greiðsludaga til fyrra horfs, úr 45 dögum í 60 og lengstu samfelldu lotu úr 20 dögum í 30.  

Til skemmri tíma geta sum sveitarfélög orðið fyrir tekjumissi ef samdráttur verður í atvinnu og umsvifum. Þarna er um að ræða tapaðar útsvarstekjur án þess að hægt verði að laga útgjöldin að lægri tekjum. Hafnarsjóðir sveitarfélaganna verða fyrir tekjutapi vegna minni umsvifa meðan samdrátturinn varir þó sveiflur í öðrum fisktegundum geti að einhverju leyti vegið þar upp á móti. Við þessu verður brugðist með framlögum úr ríkissjóði. 

Með mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem nú eru kynntar verður um það bil 6,5 milljörðum króna varið á næstu þremur árum, til nýrra verkefna sem ætlað er að styrkja atvinnulíf í landinu, auka menntun og bæta úrræði þeirra einstaklinga sem verða fyrir atvinnumissi, koma til móts við fyrirtæki í sjávarútvegi og styðja sveitarfélögin í landinu vegna tekjusamdráttar.

Þar til viðbótar verður framkvæmdum fyrir ríflega fjóra milljarða króna flýtt í samgönguáætlun sem unnar verða á árunum 2008-2010 í stað þess að koma til síðar eins og áður var áætlað.

Samtals eru framlög til nýrra verkefna auk fjármuna sem færðir eru fram í tíma frá fyrri áætlunum um 11 milljarðar króna. Þrátt fyrir að ekkert komi í stað 60 þúsund tonna af þorski kemur ríkisstjórnin hér kröftuglega til móts við þau neikvæðu áhrif sem aflasamdrátturinn veldur. 

Á fjáraukalögum 2007 verður gert ráð fyrir tæplega 2,5 milljörðum króna til framantaldra verkefna, tæplega 2,4 milljörðum króna á árinu 2008 og rúmlega 1,7 milljarði króna á árinu 2009. Er þar með talið sérframlag vegna tillagna Vestfjarðarnefndar. Vegna flýtiframkvæmda í samgöngumálum eru 2,1 milljarður áætlaðir á árinu 2008 og rétt rúmlega 2 milljarðar á árinu 2009. Ótalið eru þá fjármunir sem flýtt verður vegna framkvæmda við uppbyggingu fjarskiptakerfisins.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna aflasamdráttar eru tímabundnar enda er vonast til að minnkandi sókn í stofninn leiði til þess að hann eflist og dafni á næstu árum og unnt verði að auka veiðar að nýju innan fárra ára. Mörg þeirra verkefna sem nú verða sett á stofn verða því tímabundin á meðan atvinnulífið bregst við og finnur leiðir til þess að skapa ný störf á öðrum vettvangi. Önnur verkefni munu halda áfram að loknu því tímabili sem mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar taka til.

 


Fylgiskjal

Nánar um einstaka liði í áætluninni 

Áætlað er að leggja einn milljarð króna á næstu þremur árum til framkvæmda við endurbætur og viðhald fasteigna og mannvirkja í eigu ríkisins, bæði á vegum Fasteigna ríkissjóðs og Heilbrigðisráðuneytisins. Nánari ákvörðun um tilhögun verkefnisins verður tekin af fjármálaráðherra á tímabilinu og verður sérstaklega litið til þeirra sveitarfélaga og svæða þar sem í ljós kemur að aflasamdráttur muni leiða til fækkunar starfa.

Ljóst er að aflasamdráttur mun leiða til tekjuminnkunar hafna víða um land auk þess sem aukið atvinnuleysi veldur lækkandi skatttekjum bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Veitt verður 750 milljónum króna á tímabilinu til þess að koma til móts við lækkandi tekjur sveitarfélaga vegna þessa.

Námsframboð og náms- og starfsþjálfun í framhaldsskólum og símenntunarmiðstöðvum á landsbyggðinni verður eflt, ekki síst með tilliti til nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi. Sérstakur þróunarsjóður verður stofnaður sem mun óska eftir umsóknum og afgreiða umsóknir um skipulag og framboð slíks náms. Sjóðurinn mun jafnframt styrkja náms- og starfsráðgjöf og veita fjármunum til raunfærnismats. Er gert ráð fyrir 100 milljónum króna í fjáraukalögum 2007 og öðrum 100 milljónum króna á árinu 2008 til verkefnisins. Framhaldsskólar, símenntunarmiðstöðvar og námsstöðvar sem sveitarfélög hafa sett upp til að sinna fjarnámi skulu m.a. eiga kost á að sækja um styrk í sjóðinn.

Samdráttur í sjávarútvegi og spár um tæplega 4% atvinnuleysi á næsta ári mun auka þörf fyrir stuðningsaðgerðir og vinnumarkaðsúrræði á vegum Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir 15 milljón króna fjárveitingu til stofnunarinnar á fjáraukalögum 2007 og 45 milljónum króna á árinu 2008 til að bregðast við auknu atvinnuleysi.

Ljóst er að samdráttur í sjávarútvegi mun sérstaklega koma niður á kvennastörfum í sjávarbyggðum. Mæta þarf vanda þeirra kvenna sem missa munu störf í kjölfar minnkandi þorskveiða. Styrkveitingar til atvinnumála kvenna hafa í mörgum tilvikum gert konum kleift að móta nýja atvinnustarfsemi og um leið að leysa þær úr fjötrum atvinnuleysis. Veitt verður auknu fjármagni til verkefnisins í gegnum Vinnumálastofnun bæði á fjáraukalögum 2007 og á fjárlögum 2008, samtals að upphæð kr. 40 milljónir. Er vonast til fjárveitingin leiði til þess að um 100-150 konur finni sér nýjan starfsvettvang í stað atvinnuleysis. Þá er gerð tillaga um 20 milljón króna framlag til Brautargengis Impru, sem eru námskeið fyrir athafnakonur sem vilja hrinda af stað viðskiptahugmyndum.

Veitt verður rúmlega 58 milljónum króna á næstu tveimur árum til styrkingar Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum. Í því felst m.a. að ráðið verður í stöður upplýsingarfulltrúa, túlka og þróunarfulltrúa. Er verkefninu einkum ætlað að koma til móts við einstaklinga af erlendum uppruna sem missa munu störf vegna aflasamdráttar.

Lagt er til að auknu fjármagni verði veitt til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til uppbyggingar á Höfn og í Vestmannaeyjum, m.a. til ráðningar á tveimur nýjum starfsmönnum á hvorn stað. Er ætlunin að auka framboð og aðgengi að ráðgjöf og fræðslu á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar. Í Vestmannaeyjum mun Vestmannaeyjabær koma til móts við verkefnið með húsnæðiskostnaði. 

Settar verða 20 milljónir króna í níu verkefni með einsskiptisframlagi til tækjakaupa og/eða frekari aukningar starfa sbr. nánari ákvörðun viðkomandi stofnana. Um er að ræða Háskólasetrið í Vestmannaeyjum vegna hafrannsókna, Hafrannsóknarstofnun á Ólafsvík, Matís á Hornafirði, samvinnuverkefni Versins á Sauðárkróki, Matís og Háskólans á Hólum, rannsóknir vegna eldis sjávardýra á Patreksfirði, Háskólaseturs á Bolungarvík, Sjávarlíftækniseturs á Skagaströnd, Sjávarrannsóknarseturs á Ólafsvík og Háskólaseturs á Stykkishólmi.  
 
Gert er ráð fyrir ráðningu tveggja nýrra starfsmanna í frumkvöðla- og háskólasetrinu á Hornafirði m.a. með áherslu á styrkingu starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs. Samtals verður 32 milljónum varið til verkefnisins á fjáraukalögum þessa árs og fjárlögum næstu tveggja ára.

Til að auka svigrúm fiskvinnslufyrirtækja til að halda starfsfólki á launaskrá þrátt fyrir minnkandi þorskveiðar hefur verið ákveðið í samráði við Samtök fiskvinnslustöðva að breyta lögum um hámark greiðsludaga til fyrra horfs þannig að þeir verði 60 í stað 45 og að lengsta samfellda lota geti orðið 30 dagar í stað 20. Ekki er talin þörf á að breytingin taki gildi fyrr en á næsta ári en þrátt fyrir það er þörf á aukinni fjárveitingu vegna yfirstandandi árs. Samtals er gert ráð fyrir rúmlega 200 milljón króna fjárveitingu á fjáraukalögum og fjárlögum 2008 vegna þessa.

Gert er ráð fyrir 200 milljón króna framlagi á næstu þremur árum til aukningar starfsemi atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni með það að markmiði að auka stuðning við nýsköpun og þróun nýrra atvinnutækifæra og starfsemi.

Gert er ráð fyrir undirritun tveggja nýrra vaxtarsamninga á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra og er kostnaður vegna þess 180 milljónir króna á næstu þremur árum.

Auk sérstakrar áherslu á námskeiðahald og starfsþjálfun í gegnum sí- og endurmenntunarmiðstöðvar og Fræðslumiðstöð atvinnulífisins er gert ráð fyrir að styrkja verulega framhaldsnám á landsbyggðinni. Frumgreinadeild Keilis hefur þegar hafið starfsemi á Suðurnesjum og er einnig gert ráð fyrir slíkri starfsemi á Vestfjörðum. Veitt verður sérstöku fjármagni til Fjölbrautaskóla Norðurlands, Fjölbrautaskóla Austur-Skaftfellinga og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum til eflingar námsframboðs m.a. í fjarnámi. Þá er gert ráð fyrir auknu framlagi til að flýta starfsemi nýs framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Samtals verður 364 milljónum varið til þessara verkefna á þessu og næstu tveimur árum.

Á vegum Þjóðskjalasafns Íslands er gert ráð fyrir að hefja grunnskráningu og endurskráningu á lítt eða óskráðum skjalasöfnum svo og stafræna gerð manntala. Með verkefninu er gert ráð fyrir að bæta aðgengi almennings, fræðimanna og opinberra stofnana  að mikilvægum réttar- og menningarsögulegum heimildum með hjálp upplýsingartækni og alþjóðlegra staðla. Er gert ráð fyrir að 20 störf á ári skapist vegna verkefnisins sem unnin verða m.a. í samstarfi við héraðsskjalasöfnin á Ísafirði, Sauðárkróki og Húsavík. Gert er ráð fyrir 40 milljónum króna til verkefnisins á fjáraukalögum 2007 auk 100 milljóna á ári á næstu tveimur árum.

Ferðaþjónusta fer vaxandi um allt land og er í tillögum þessum gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til styrkingar ferðaþjónustunnar á næstu tveimur árum. Er í því sambandi sérstaklega horft til þeirra svæða sem verst verða úti við niðurskurð þroskaflans. Veitt verður 160 milljónum króna til stuðnings ferðaþjónustunni á næstu tveimur árum. Þá er gert ráð fyrir 36 milljón króna framlagi vegna samnings til tveggja ára vegna aukinna flugferða til Vestmannaeyja yfir helsta ferðaþjónustutímann.

Ísafjarðardjúp er nú einangrað frá raforkukerfi landsins og er rekið það sérstakt raforkukerfi. Orkuöflun í Ísafjarðardjúpi er kostnaðarsöm og rafmagn er óstöðugt sökum margra smárra orkuvinnslustöðva. Orkubú Vestfjarða mun leggja 160 milljónir króna á næsta ári til þess að hefja vinnu við að tengja Ísafjarðardjúp við raforkukerfi annarra landshluta.

Þá verður veitt 150 milljónum króna til jarðhitaleitar víðs vegar um landið, m.a. á Vestfjörðum, Vesturlandi, Suðurlandi og Austfjörðum.

Eins og iðnaðarráðherra hefur þegar greint frá er gert ráð fyrir að 1.200 milljónum króna verði varið til afléttingar lána Byggðastofnunar við ríkissjóð. Mun Byggðastofnun þar með öðlast svigrúm til þess að koma til móts við fyrirtæki í sjávarútvegi sem lenda munu í tekjusamdrætti vegna skerðingar þorskaflans.

Eins og samgönguráðherra hefur áður kynnt er gert ráð fyrir flýtingu framkvæmda í vegamálum sem leiða munu til aukinna verkefna og nýrra starfa. Þá munu bættar samgöngur auka möguleika á frekari atvinnuuppbyggingu og stuðla að aukinni umferð ferðamanna. Vegna flýtiframkvæmda verða framlög til vegamála færð fram um 1.400 milljónir á árinu 2008, 2.010 milljónir á árinu 2009 og rúmlega 2.400 milljónir á árinu 2010. Ný framlög til vegamála, sem ekki voru ráðgerð áður, verða 130 milljónir á árinu 2008 og 200 milljónir á árinu 2009.

Þá er gert ráð fyrir að færa fram fjármagn til lengingar Akureyrarflugvallar, gerðar endaöryggissvæða og vegna aðflugsbúnaðar og eru tæplega 700 milljónir færðar fram til ársins 2008 sem áður höfðu verið áætlaðar síðar.

Enn fremur verður aukinn hraði settur í uppbyggingu fjarskiptakerfa á vegum Fjarskiptasjóðs sem sérstaklega verður kynnt síðar af samgönguráðherra.


Reykjavík, 12. september 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum