Hoppa yfir valmynd
17. september 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mótvægisaðgerðir á vegum félagsmálaráðuneytis

Á vegum félagsmálaráðuneytisins verður á næstu tveimur árum varið ríflega 1.125 milljónum króna til mótvægisaðgerða í fimm aðskildum verkefnum sem nýtast munu um allt land. Verkefnin eru hluti af viðamiklum mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar aflaheimilda í þorski sem kynntar hafa verið.

Verður 750 milljónum króna varið til sveitarfélaga sem verða fyrir tekjumissi vegna skerðingarinnar samkvæmt nánara samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Framlaginu er ætlað að bæta tekjumissi hafna vegna löndunargjalda og sveitarsjóða vegna minni útsvarstekna samfara minnkandi þorskafla.

Þá verður 58,5 milljónum króna varið til Fjölmenningarseturs og starfsemi þess í þágu innflytjenda ríflega þrefölduð. Stefnt er að ráðningu einstaklinga sem túlka úr  pólsku, rússnessku og litháísku vegna upplýsingasíma og ýmiskonar upplýsingagjafar, ekki síst tengt vinnumarkaðsmálum. Einnig er reiknað með ráðningu upplýsingafulltrúa og þróunarfulltrúa sem myndu sinna ýmiskonar verkefnum um allt land.

Styrkir til atvinnumála kvenna verða auknir um 40 milljónir króna á tveimur árum, úr 50 milljónum í 90 milljónir króna. Styrkveitingar til atvinnumála kvenna hafa í mörgum tilvikum gert konum kleift að móta nýja atvinnustarfsemi og um leið leyst þær úr fjötrum atvinnuleysis. Styrkirnir verða tvöfaldaðir á næsta ári og ráðist í 15 milljóna króna aukaúthlutun þegar árið 2007.

Síðan verður 217 milljónum króna varið til að rýmka heimildir fiskvinnslufyrirtækja til að halda starfsfólki sínu á launaskrá í aflabresti í stað uppsagna. Í samráði við Samtök fiskvinnslustöðva er stefnt að endurskoðun laga með það að markmiði að færa hámark greiðsludaga úr 45  í 60 á ári og lengstu samfelldu lotu úr 20 í 30  greiðsludaga.

Þá verður starfsemi Vinnumálastofnunar efld með 60 milljóna króna aukaframlagi næstu tvö árin enda ljóst að þörfin á vinnumarkaðsúrræðum, ráðgjöf og vinnumiðlun eykst á mörgun stöðum samtímis vegna niðurskurðar á þorskkvóta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta