Hoppa yfir valmynd
17. september 2007 Innviðaráðuneytið

Öflugri uppbygging með sterkari hafnaeiningum

Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp á fundi Hafnarsambands Íslands á Ísafirði síðastliðinn föstudag. Á fundinum var meðal annars fjallað um vigtarmál, umhverfismál öryggismál og fleira.

Í ávarpi sínu sagði samgönguráðherra meðal annars að hafnir landsins væru þýðingarmikill hluti af samgöngukerfinu, lífæð og tenging við önnur byggðarlög. Þá sagði hann hafnirnar nú ganga gegnum mikið breytingaskeið. ,,Á nokkrum stöðum hafa hafnir verið sameinaðar og ljóst er að sú verður raunin víðar. Sterk hafnasamlög eða sameignarfyrirtæki sveitarfélaga um rekstur hafna eru eflaust það sem koma skal þar sem unnt er að koma því við,? og taldi ráðherra að með sterkari einingum yrði unnt að standa betur að nauðsynlegri uppbyggingu og veita betri þjónustu.

Síðan sagði samgönguráðherra:

,,Ákvörðun ríkisstjórninnar um samdrátt í fiskveiðiheimildum á nýbyrjuðu fiskveiðiári kemur til með að hafa áhrif á tekjur sveitarfélaga víða um land og þar með hafna. Hún gæti haft áhrif á getu hafna til að ráðast í framkvæmdir en samkvæmt gildandi hafnalögum geta þær sótt um styrki til að fjármagna hlutdeild í ákveðnum framkvæmdum. Ný ákvæði um styrki við hafnarframkvæmdir sveitarfélaga eiga að taka gildi 1. janúar 2009.

Að óbreyttu mun það að líkindum leiða til þess að sveitarfélög, sem þegar hafa fengið heimildir til framkvæmda á grundvelli eldri styrkjareglna í samgönguáætlun, munu ráðast í þessar framkvæmdir á næsta ári, burtséð frá tekjusamdrætti vegna skertra veiðiheimilda, til þess að missa ekki af þeim betri styrkjum sem fólust í eldra kerfinu.

Ríkisstjórnin taldi því rétt að heimila sveitarfélögum, sem þess óska, að fresta tímabundið hafnarframkvæmdum sem þegar eru á samgönguáætlun samkvæmt eldri styrkjareglum. Lagafrumvarp vegna þessara breytinga er nú í undirbúningi og verður þar gert ráð fyrir að breytingar á styrkjakerfinu gangi ekki í gildi fyrr en í ársbyrjun 2011.

Það er ljóst að hafnarsjóðir sveitarfélaga verða fyrir tekjutapi vegna minni umsvifa meðan samdrátturinn varir þó sveiflur í öðrum fisktegundum geti að einhverju leyti vegið þar upp á móti. Við þessu hefur verið ákveðið að bregðast með framlögum úr ríkissjóði. Þannig verður 750 milljónum króna varið til þess í ár og tvö næstu ár að mæta tekjutapi sveitarfélaga annars vegar af lækkuðum útsvarstekjum vegna samdráttar í atvinnu og umsvifum og hins vegar vegna samdráttar í tekjum af löndunargjöldum.

Eins og ykkur er líka kunnugt kynnti ég í sumar nokkrar mótvægisaðgerðir í vegagerð en þær felast fyrst og fremst í flýtingu verkefna en einnig í nýjum framkvæmdum. Þannig verða framlög til vegamála færð fram um 1.400 milljónir á árinu 2008, 2.010 milljónir á árinu 2009 og rúmlega 2.400 milljónir á árinu 2010.

Góðir fundarmenn

Ég sé að þið munu ræða ýmsar tæknilegar hliðar á hafnamálum hér í dag. Brýnt er að staldra við og skiptast á upplýsingum og þekkingu um það sem er efst á baugi og það sem brennur á ykkur sem forráðamönnum hafna á Íslandi. Þetta er mikilvægur og fyrirferðamikill málaflokkur í samgönguráðuneytinu og Siglingastofnun og ég þarf eflaust ekki að hvetja ykkur til að ræða málin ofan í kjölinn og senda okkur í ráðuneytinu ábendingar og hugmyndir. Allt slíkt er vel þegið og skoðað af alvöru.

Í lokin vil ég svo óska ykkur góðs gengið á árangursríkum fundi.?



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta