Fertugsafmæli Skaftafellsþjóðgarðs
Haldið var upp á 40 ára afmæli Skaftafellsþjóðgarðs í þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli. Við það tilefni kynnti dr. Jack D. Ives nýja bók um Skaftafell, sem fjallar um 1000 ára sögu staðarins. Bókin er bæði gefin út á íslensku og ensku. Þórunn Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra fékk bókina afhenta við þetta tilefni. Í ræðu sem umhverfisráðherra flutti við þetta tilefni sagði hún meðal annars:
,,Aðdraganda að stofnun Skaftafellsþjóðgarðs má rekja um 50 ár aftur í tímann. Um miðjan 6. áratuginn urðu vatnaskil í umræðu um náttúruvernd á Íslandi. Mikið hafði áunnist með stofnun þjóðgarðsins á Þingvöllum. Eftir að friðlýsing Þingvalla hafði náð fram að ganga var brautin að ýmsu leyti beinni, en það sýndi sig þó að lög um almenna náttúruvernd áttu langt í land. Þá skipti miklu að í fylkingarbrjósti náttúruverndarmála voru menn, sem gátu í senn talað af djúpri þekkingu og þannig að þeir náðu til almennings. Árið 1956 voru fyrstu lögin um náttúruvernd sett og fyrsta Náttúruverndarráðið var stofnað. Á þeim tíma og allt fram að stofnun umhverfisráðuneytisins heyrði málaflokkurinn undir Menntamálaráðuneytið.
Það var án efa undir áhrifum nýrra náttúruverndarlaga að prófessor Sigurður Þórarinsson lagði fyrst til árið 1959 að í Skaftafelli skyldi verða þjóðgarður. Hann var meðal þeirra fjölmörgu manna sem unnu ötullega að því markmiði að friðlýsa Skaftafell í Öræfum sem þjóðgarð. Sigurður hafði stundað rannsóknir á svæðinu á 6. áratuginum, m.a. kannað eldvirkni í Öræfajökli og komist að þeirri niðurstöðu að stórt gos í Öræfajökli hefði lagt sveitina í eyði árið 1362. Rannsóknir Sigurðar þóttu gagnmerkar enda ruddi hann braut nútíma eldfjallafræði á þessum tíma.
Formlegur undirbúningur að stofnun þjóðgarðs í Skaftafelli hófst með bréfi frá Sigurði Þórarinssyni dagsettu í nóvember 1960 til þáverandi Náttúruverndarráðs. Í bréfinu kemur fram beiðni um það að skoðaðir verði af fullri alvöru möguleikar á stofnun þjóðgarðs í landi Skaftafells og svæðis austan Skeiðarár. Þessi saga verður ekki rakin hér en ljóst er að hér voru hugsjónir stórhuga manna á ferðinni sem sáu möguleika í verndun náttúrunnar til framtíðar. Margir komu að undirbúningi stofnun þjóðgarðsins á sínum tíma og væri of langt mál að telja þá alla hér upp. Úrslitum réði þó velvilji landeigenda á svæðinu, manna eins og Ragnars Stefánssonar bónda í Hæðum og Ingigerðar Þorteinsdóttur, eiganda Bölta. Framlag Sir Peters Scott og World Wildlife Fund skipti einnig miklu en með styrk frá þeim sjóði var unnt að ganga frá kaupum á hluta Skaftafellsjarðarinnar undir þjóðgarðinn. Sir Peter Scott sem þekktur er m.a. fyrir rannsóknir á heiðargæs í Þjórsárverum var einn af stofnendum WWF sjóðsins og hefur áhugi hans á og umhyggja fyrir sérstæðri náttúru Íslands án efa átt sinn þátt í að styrkurinn fékkst".