Afhending trúnaðarbréfs
Sveinn Björnsson, sendiherra, afhenti 17. september sl., Filip Vujanovic, forseta Svartfjallalands (Montenegro) trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Svartfjallalandi með aðsetur í Vínarborg.
Ísland viðurkenndi Svartfjallaland í júní 2006, fyrst allra ríkja og hlaut því afhending trúnaðarbréfsins nokkra athygli þar í landi. Eftir athöfnina fóru fram viðræður sem Milan Rocen, utanríkisráðherra tók einnig þátt í. Vujanovic, forseti, kvað það vera sögulega stund að taka á móti fyrsta sendiherra Íslands gagnvart Svartfjallalandi og að það væri mikils metið að Ísland hefði verið fyrsta landið til að viðurkenna Svartfjallaland. Rætt var um framboð Íslands til Öryggisráðsins, möguleikana á tvíhliða samskiptum landanna, einkum á sviði viðskipta, hugsanlegra fjárfestinga af hálfu Íslendinga í Svartfjallalandi og að íslenskir ferðamenn leggðu leið sína til landsins , en Svartfjallaland hefur upp á að bjóða einstaka náttúrufegurð og fallegar strendur. Erlendir fjárfestar taka nú þátt í mikilli uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins í landinu.