Hoppa yfir valmynd
21. september 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fréttatilkynning - nefnd um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra

Félagsmálaráðherra hefur í samræmi við þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna, sem samþykkt var á 134. löggjafarþingi, ákveðið að skipa nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra. Nefndinni verður jafnframt falið að fjalla um réttarstöðu stjúpforeldra og aðstæður þeirra.

Meginverkefni nefndarinnar verða að kanna fjárhagslega og félagslega stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og stjúpforeldra, að skipuleggja og vinna að söfnun upplýsinga um þessa hópa foreldra og stöðu þeirra og að fara yfir réttarreglur sem varða hópana og gera tillögur til hlutaðeigandi ráðherra um hugsanlegar úrbætur í málefnum þeirra á grundvelli löggjafar og/eða tiltekinna aðgerða.

Formaður skal skipaður af félagsmálaráðherra og óskað verður eftir tilnefningum í nefndina frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Hagstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, Rannsóknarsetri í barna- og fjölskylduvernd, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Heimili og skóla, Félagi einstæðra foreldra, Félagi stjúpfjölskyldna og Félagi ábyrgra feðra.

Nefndin skal skila félagsmálaráðherra tillögum sínum eigi síðar en 1. júlí 2008.

Félagsmálaráðherra tilkynnti um áform sín um skipun nefndarinnar í erindi sem hún flutti í hádeginu í dag á málstofu Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd og Félagsráðgjafaskorar HÍ á fyrirlestraröðinni „Börn og breytingar í fjölskyldum“.

„Ég hef lagt ríka áherslu á að staða þessara hópa verði skoðuð en á það hefur skort að mínu mati. Það er ekki síst mikilvægt að fjalla um réttarstöðu þessara hópa í samhengi í ljósi breytinga sem eru að verða á fjölskyldugerð hér á landi.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsErindi félagsmálaráðherra á málstofu



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum