Hoppa yfir valmynd
21. september 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Seðlabanki Bandaríkjanna lækkar stýrivexti

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 20. september 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Síðastliðinn þriðjudag ákvað Seðlabanki Bandaríkjanna að lækka stýrivexti um 50 punkta.

Í röksemdafærslu bankastjórnar kom fram að samdráttur á lánsfjármarkaði getur hert á leiðréttingu á fasteignamarkaði og það haft áhrif til að halda aftur af hagvexti. Lækkun stýrivaxta bankans hefur það markmið að fyrirbyggja neikvæð áhrif af truflun í starfsemi fjármálamarkaða og stuðla að hóflegum hagvexti í framtíðinni.

Lækkunin, sem er sú fyrsta í fjögur ár, var umfram væntingar markaðsaðila sem höfðu almennt spáð 25 punkta lækkun. Fyrir vikið tók hlutabréfaverð kipp upp á við þegar ákvörðunin lá fyrir en Dow Jones vísitalan hækkaði um 2,5% á þriðjudaginn og einkenndu miklar hækkanir markaði í London, Frankfurt og Tókýó á miðvikudag.

Ákvörðun Seðlabankans er talin mikilvægt skref í að róa markaði innanlands og á heimsvísu en bankinn hefur verið undir miklum þrýstingi um að lækka vexti að undanförnu eftir því sem lausafjárvandamál á fjármálamörkuðum hafa undið upp á sig.

Horfur eru á að evrópski seðlabankinn muni halda vöxtum stöðugum á vaxtaákvörðunar- fundinum í október en hann mun halda áfram að bjóða lánsfjárstofnunum lausafjárstuðning eins og Seðlabanki Bandaríkjanna. Ákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna hafði jákvæð áhrif á Íslandi eins og annars staðar, en úrvalsvísitalan hefur hækkað tvo síðustu daga og gengið styrkst.

Stýrivextir 2001-2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta