Aldur og menntun ríkisstarfsmanna
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 20. september 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Verkefni ríkisins eru margvísleg að eðli og umfangi og eru starfsmenn ríkisstofnana fjölbreyttur hópur.
Hér verður gerð grein fyrir nokkrum tölulegum staðreyndum um aldur og menntun starfsmanna ríkisins en umfjöllunin birtist í niðurstöðum könnunar á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna frá árinu 2006.
Meðalaldur ríkisstarfsmanna er 45,4 ár. Konur eru aðeins yngri með tæplega 45 ára meðalaldur en karlar eru ríflega 46 ára gamlir. Yngstur er starfsmannahópurinn hjá stofnunum félags- og lýðheilsumála en þar er meðalaldurinn 40,5 ár. Í þessum stofnanahópi er meðalaldur karla 39,7 ár en í öllum öðrum hópum er meðalaldur karla og kvenna hærri en 40 ár. Hæstur er meðalaldurinn hjá stofnunum atvinnumála, ráðuneyta, umhverfis-, skipulags- og samgöngumála en þar er hann 48,2 ár.
Meðalaldur ríkisstarfsmanna hefur hækkað frá árinu 1995 en þá var hann 41 ár. Meðalaldur kvenna á því ári var 40 ár en meðalaldur karla 42 ár.
Samkvæmt könnuninni hefur hlutfall starfsmanna ríkisins með háskólamenntun hækkað talsvert frá fyrri könnun 1998. Þá voru 43% þátttakenda háskólagengin en nú er sama hlutfall 57%. Að sama skapi hefur hlutfall starfsmanna með starfs- og framhaldsmenntun lækkað, er nú rúmur þriðjungur en var tæp 45% árið 1998. Hlutfall þeirra sem eru einvörðungu með grunnmenntun hefur einnig lækkað, úr 12% í innan við 9%.
Menntun ríkisstarfsmanna er breytileg eftir stofnanaflokkum. Alls voru 82% starfsmanna framhalds- og háskóla voru með háskólapróf en 20% starfsmanna sýslumanns- og lögregluembætta og fangelsa. Í þeim flokki eru flestir með starfs- og framhaldsmenntun.