Ísland í brennidepli í Brussel 2008
Íslensk lista- og menningarhátíð verður haldin í Brussel á fyrri hluta árs 2008 í samstarfi við BOZAR lista- og menningarmiðstöðina í miðborg Brussel, sem er stærsta og þekktasta stofnun í Belgíu á sínu sviði. Hún stendur reglulega að sambærilegum verkefnum í samstarfi við ýmis ríki og heldur einnig sjálf úti umfangsmikilli dagskrá á öllum sviðum lista. Íslensk stjórnvöld, Reykjavíkurborg, Ferðamálastofa og Útflutningsráð koma að verkefninu. Landsbanki Íslands er máttarstólpi hátíðarinnar. Aðrir samstarfsaðilar eru Icelandair og Icelandair Cargo.
Markmið hátíðarinnar er að kynna íslenskar listir og listamenn og efla ímynd Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Hátíðin hefst 26. febrúar 2008 og mun standa fram undir miðjan júní. Yfirskrift hennar verður „Iceland – On the Edge" með skírskotun til krafts og fjölbreytni í íslensku menningar- og efnahagslífi svo og legu landsins. Meðal helstu atriða er sýning á íslenskri samtímamyndlist, Pétur Gautur í flutningi Þjóðleikhússins, sýningar á vegum Íslenska dansflokksins og danshóps Ernu Ómarsdóttur, bókmenntakvöld um Halldór Laxness og um unga samtímahöfunda, íslenskar kvikmyndir, tónleikar með ungu íslensku tónlistarfólki á sviði sígildrar tónlistar og popptónlistar, sýnd íslensk drykkjarhorn úr Þjóðminjasafninu o.fl. Ráðgerð er sýning um nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið og að orkumálum verði gerð skil með fyrirlestrum. Að auki er stefnt að ýmsum kynningum og fundum um ferðamál og íslenskt viðskiptalíf. Þegar hefur belgísk sjónvarpsstöð tekið upp sjónvarpsþátt um Ísland í tengslum við verkefnið og efnt verður til blaðamannaferðar til Íslands í október næstkomandi.
Stefnt er að metnaðarfullri lista- og menningarhátíð í samræmi við stefnumið ríkisstjórnarinnar um að „ríkisstjórnin mun styðja menningu og listir sem mikilvægan hluta af aðdráttarafli landsins og vaxandi uppsprettu útflutningstekna". Samstarfið við BOZAR gefur kost á að ná til breiðs hóps, en árlega sækir yfir 1 milljón gesta miðstöðina, heimamenn og starfsmenn hinna mörgu alþjóðastofnana sem hafa aðsetur í Brussel.