Lagafrumvörp send þingflokkum
Drög að lagafrumvörpum vegna breytinga á hafnalögum, siglingalögum og lögum um skipan ferðamála voru kynnt í ríkisstjórn í morgun og samþykkt að þau færu til umfjöllunar í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna.
Kristján L. Möller samgönguráðherra kynnti lagafrumvörpin í ríkisstjórn í morgun. Breytingin á siglingalögum tekur til ábyrgðar útgerðarmanna og takmörgun ábyrgðar og miða að því að uppfæra takmörkunarfjárhæðir í því skyni að bæta stöðu tjónþola. Þannig hækki ábyrgðartakmörk vegna hvers farþega sem slasast eða deyr úr 46.666 SDR í 175.000 SDR sem eru um 16,8 milljónir króna, fellt verði brott ákvæði um hámarksfjárhæð, takmörk vegna krafna vegna líkamstjóns hækka úr 333.000 í 2.000.000 SDR sem eru um 192 milljónir króna og ábyrgðartakmörk fyrir allar aðrar kröfur hækka í 1.000.000 SDR.
Fyrirhuguð breyting á lögum um skipan ferðamála er til að lagfæra nokkur atriði og eru drög að þeim unnin í samráði við Ferðamálastofu en ný lög um skipan ferðamála gengu í gildi 1. janúar 2006. Er meðal annars lagt til að skerpa skilgreiningu á ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofu, að leyfishöfum skuli skylt að nota auðkenni Ferðamálastofu og kveða skýrt á um það úrræði að lögregla skuli stöðva starfsemi að beiðni Ferðamálastofu ef leyfisskyld starfsemi er stunduð án leyfis.
Þá er lögð til sú breyting á hafnalögum að sveitarfélögum verði heimilt að fresta styrktum hafnaframkvæmdum tímabundið meðan áhrifa af samdrætti aflamarks gætir en samkvæmt gildandi lögum eiga ný ákvæði að taka gildi 1. janúar 2009. Frumvarpið gerir ráð fyrir frestun til 1. janúar 2011.