Þing háttsettra leiðtoga um loftslagsbreytingar
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 100/2007
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra flutti í gær ræðu á sérlegu þingi háttsettra leiðtoga um loftslagsbreytingar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Til þingsins var sérstaklega boðað af Ban Ki-Moon aðalframkvæmdastjóra SÞ vegna hinnar aðkallandi loftslagsvár í heiminum. Fundinn sótti einnig Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra.
Í ræðu sinni fagnaði utanríkisráðherra frumkvæði Ban Ki-Moon og lagði áherslu á nauðsyn þess að alþjóðlegir sáttmálar um tölusett markmið og aðgerðaáætlun gegn loftslagsbreytingum yrðu mótaðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þótt fagna bæri nýrri viðleitni stærstu iðnríkja á þessu sviði væri mikilvægt að samningar yrðu gegnsæir og opnir öll ríkjum heims, sérstaklega þeim sem fyrirséð væri að harðast yrðu úti af völdum loftslagsbreytinga. Hét utanríkisráðherra fullum pólitískum stuðningi Íslands við alþjóðlegar aðgerðir, þ. á m. á Balí-ráðstefnunni í desember og á væntanlegum þjóðarleiðtogafundi í Kaupmannahöfn 2009. Byggja bæri á því sem vel hefði reynst í Kyoto-samningnum s.s. þeim takmörkum og tímamörkum sem þar hefðu verið sett en jafnframt koma til móts við þróunarríki og leita nýrra lausna í samstarfi við atvinnulíf.
Nánari upplýsingar um loftlagsþingið má finna á heimasíðunni www.un.org/climatechange
Ráðherrarnir sóttu einnig hádegisfund, sem haldinn er að frumkvæði Kenýa, Indónesíu, Póllands og Danmerkur, undir yfirskriftinni "Global Voices on Climate Change". Þessi ríki eru gestgjafaríki á aðildarríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna árin 2006-2009.
Þá átti utanríkisráðherra tvíhliða fundi með Meritxell Mateu Pi, utanríkisráðherra Andorra, og Dr. Keitch Mitchel, forsætisráðherra Grenada.