Hoppa yfir valmynd
28. september 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Beiðni um endurupptöku kærumáls vegna Gjábakkavegar synjað

Pétur M. Jónasson og Náttúruverndarsamtök Suðurlands fóru fram á það við umhverfisráðuneytið í ágúst sl. að kærumál vegna mats á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar (365), Laugarvatn-Þingvellir, Bláskógabyggð yrði tekið upp á ný.

Forsaga málsins er sú að Skipulagsstofnun féllst í úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, dags. 24. maí 2006, á alla framkvæmdakosti með tilteknum skilyrðum. Þann úrskurð kærði Pétur M. Jónasson til ráðuneytisins. Úrskurður í kærumálinu var kveðinn upp þann 10. maí 2007 og krafðist kærandi þess að umhverfisráðherra felldi úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi er varðar svokallaða leið 7. Í úrskurðinum var fjallað ítarlega um lög um verndun vatnasviðs Þingvallavatns, nr. 85/2005, köfnunarefnismengun, áhrif á umferð, landslag o.fl. að því er varðar leið 7. Niðurstaða ráðuneytisins var að ekki yrði fallist á að leið 7 muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Í niðurstöðu ráðuneytisins varðandi beiðni um endurupptöku málsins segir að ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar eða ábendingar um ófullnægjandi upplýsingar. Ráðuneytið telur því ekki forsendur til endurupptöku málsins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta