Beiðni um endurupptöku kærumáls vegna Gjábakkavegar synjað
Pétur M. Jónasson og Náttúruverndarsamtök Suðurlands fóru fram á það við umhverfisráðuneytið í ágúst sl. að kærumál vegna mats á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar (365), Laugarvatn-Þingvellir, Bláskógabyggð yrði tekið upp á ný.
Forsaga málsins er sú að Skipulagsstofnun féllst í úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, dags. 24. maí 2006, á alla framkvæmdakosti með tilteknum skilyrðum. Þann úrskurð kærði Pétur M. Jónasson til ráðuneytisins. Úrskurður í kærumálinu var kveðinn upp þann 10. maí 2007 og krafðist kærandi þess að umhverfisráðherra felldi úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi er varðar svokallaða leið 7. Í úrskurðinum var fjallað ítarlega um lög um verndun vatnasviðs Þingvallavatns, nr. 85/2005, köfnunarefnismengun, áhrif á umferð, landslag o.fl. að því er varðar leið 7. Niðurstaða ráðuneytisins var að ekki yrði fallist á að leið 7 muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.
Í niðurstöðu ráðuneytisins varðandi beiðni um endurupptöku málsins segir að ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar eða ábendingar um ófullnægjandi upplýsingar. Ráðuneytið telur því ekki forsendur til endurupptöku málsins.