Afhending trúnaðarbréfa
Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sendiherra, afhenti 6. september sl., Letsie III, konungi Lesótó, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Lesótó með aðsetur í Pretoríu.
Konungsríkið og Ísland hafa haft stjórnmálasamband frá 1983 en íslenskur sendiherra hefur ekki áður afhent trúnaðarbréf sitt gagnvart ríkinu. Í tengslum við athöfnina átti sendiherra samtal við konung og fundi með P. Mosisili, forsætisráðherra, og M. Phooko, starfandi utanríkisráðherra. Rætt var um mikilvægi þess að lítil ríki ynnu saman og styddu hvert annað á alþjóðavettvangi. Fór sendiherra fram á stuðning Lesótó við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna og ræddi einnig mikilvægi fullgildingar EFTA-SACU fríverslunarsamningsins, sem myndi greiða fyrir viðskiptum ríkjanna. Fram kom mikill áhugi Lesótómanna á samstarfi við Ísland á sviði viðskipta og þróunarsamvinnu, einkum hvað varðar virkjun fallvatna, fiskeldi og félagsleg verkefni. Lesótó, sem er fjallaríki umkringt Suður Afríku, er meðal fátækustu ríkja álfunnar, en læsi er samt með því hæsta sem gerist í Afríkuríkjum og lög um erlendar fjárfestingar rýmri en víða annars staðar í álfunni. Lesótó hefur einnig upp á einstaka náttúrufegurð að bjóða og er álitið ákjósanlegt ferðamannaland.
Ennfremur afhenti sendiherra, þann 9. júlí sl, Armando Guebuza, forseta Mósambík, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Mósambík með aðsetur í Pretoríu.
Íslendingar hafa stundað þróunarsamvinnu í Mósambík í rúman áratug og þar var fyrsta sendiráð Íslands í Afríku opnað árið 2001. Í samtali forseta og sendiherra eftir athöfnina þakkaði forseti Íslendingum samvinnuna og ræddi einnig um orkumál sem hann taldi meðal brýnustu úrlausnarefna landsins. Sendiherra þakkaði forseta stuðning Mósambík við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna.