Framkvæmd fjárlaga
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 27. september 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Fjármálaráðuneytinu ber að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og veita leiðbeiningar þar um, á grundvelli sérstakrar reglugerðar nr. 1061/2004.
Ráðuneyti og forstöðumenn stofnana bera ábyrgð á að rekstrarútgjöld séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Þeim ber skylda til að bregðast við ef útgjöld verða meira en 4% umfram heimildir hverju sinni.
Fjármálaráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að ýmsum umbótum til að styrkja framkvæmd fjárlaga. Sá grunnur sem byggt er á hvílir á skýrri verkaskiptingu einstakra aðila í ferlinu og að ábyrgðarskil séu skýr. Jafnframt þessu er lögð áhersla á að styrkja fjárhagsáætlanagerð stofnana og innleiða setningu markmiða og starfsáætlana í rekstri stofnana m.a. með samningum um árangursstjórnun.
Innan ársins fylgir fjármálaráðuneytið framkvæmd fjárlaga eftir á þann hátt að í kjölfar samþykktar fjárlaga á það fund með ráðuneytunum þar sem reynt er að leggja mat á þá veikleika sem kunna að vera í rekstri einstakra stofnana á grundvelli heimilda Alþingis og þeirra rekstraráætlana sem liggja fyrir af hálfu stofnana. Ráðuneytunum er síðan ætlað að bregðast sérstaklega við gagnvart þessum stofnunum til að hafa áhrif á framvindu útgjalda.
Samhliða þessu hefur upplýsingagjöf um framvindu útgjalda innan ársins verið aukin. Þannig er ríkistjórn og fjárlaganefnd Alþingis ársfjórðungslega gerð grein fyrir stöðu einstakra fjárlagaliða í samanburði við heimildir. Á sömu tímabilum hefur fjármálaráðuneytið skriflega farið þess á leit við einstök ráðuneyti að þau geri grein fyrir því til hvaða aðgerða þau hyggjast grípa gagnvart þeim liðum sem eru umfram 4% viðmiðunarmörk reglugerðarinnar.
Útgjöld ríkissjóðs janúar-júní 2007
Flokkur |
Gjöld
|
Fjár-
heimild |
Frávik
m.kr. |
Frávik
% |
---|---|---|---|---|
Rekstrargjöld |
88.043
|
87.090
|
-953
|
-1,1
|
Rekstrartilfærslur |
68.208
|
74.019
|
5.811
|
7,9
|
Vaxtagjöld |
8.850
|
8.843
|
-7
|
-0,1
|
Viðhald og stofnkostnaður |
9.747
|
14.740
|
4.994
|
33,9
|
Samtals |
174.848
|
184.692
|
9.844
|
5,3
|
Í meðfylgjandi töflu má sjá yfirlit um útgjöld stofnana fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs. Þar er fjárlagaliðum skipt upp í fjóra flokka eftir svokallaðri hagrænni skiptingu útgjalda, þ.e. rekstrarútgjöld, rekstrartilfærslur, vaxtagjöld og viðhalds- og stofnkostnaðarliði. Rekstrargjöld sýna kostnað að frádregnum sértekjum stofnana. Tilfærslur eru ýmsar greiðslur og bætur úr ríkissjóði til einstaklinga svo sem tryggingabætur, barnabætur og greiðslur til bænda.