Hoppa yfir valmynd
1. október 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Orðsending til sveitarfélaga og hagsmunaðila

Menntamálaráðuneytinu hafa borist fyrirspurnir þar sem óskað er eftir túlkun á 33. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995, sem breytt var með lögum nr. 98/2006, er lýtur að því ákvæði að óheimilt sé að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda.

Menntamálaráðuneytinu hafa borist fyrirspurnir þar sem óskað er eftir túlkun á 33. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995, sem breytt var með lögum nr. 98/2006, er lýtur að því ákvæði að óheimilt sé að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort fyrir liggi útreikningur á kostnaðarauka sveitarfélaga, miðað við ákveðinn nemendafjölda í hverjum árgangi, vegna þessa nýja ákvæðis í 33. gr. grunnskólalaga.

Ráðuneytið bendir á að skv. 1. mgr. 33. gr. grunnskólalaga skal kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni er nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum grunnskólalaga og aðalnámskrár. Ákvæði þetta hefur verið óbreytt frá setningu þess árið 1995. Með 17. gr. laga nr. 98/2006, var bætt við 33. gr. grunnskólalaga nýrri málsgrein, 2. mgr., þess efnis að óheimilt væri að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Samkvæmt athugasemdum sem fylgdu því frumvarpi var tekið fram að ástæða lagabreytingarinnar væri að taka af öll tvímæli um þennan kostnaðarlið.

Samkvæmt framansögðu hefur að mati ráðuneytisins verið óheimilt frá setningu grunnskólalaga nr. 66/1995, að taka gjald af nemendum fyrir vettvangsferðir sem skipulagðar eru af grunnskólum á venjulegum kennsludegi allra nemenda. Sú breyting sem gerð var á 33. gr. grunnskólalaga með fyrrgreindum lögum nr. 98/2006, fól því að mati ráðuneytisins einungis í sér áréttingu á gildandi lögum og þeirri ætlun löggjafans með setningu grunnskólalaga árið 1995, að allt skyldunám skyldi vera nemendum að kostnaðarlausu. Hér er því ekki um nýtilkominn kostnaðarauka sveitarfélaga að ræða. Með hliðsjón af framangreindu er það mat ráðuneytisins að líta verði svo á að allt skyldunám í grunnskólum eigi að vera nemendum að kostnaðarlausu, þar með talin ferðalög sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda.

Fyrir hönd ráðherra

Guðmundur Árnason

Helga Þórisdóttir



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta