Hlutur skatta í bensínverði
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 27. september 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Almennt er hægt að rökstyðja skattlagningu á bíla og umferð með því að þeim sem þá eiga stendur til boða að nota vegakerfið og þá þjónustu sem þar er í boði án þess að greiða sérstakt gjald.
Einnig veldur umferð ökutækja ýmsum kostnaði sem notandinn verður ekki var við nema endrum og sinnum. Umferð veldur mengun og hávaða, auk þess sem samfélagið tekur á sig ýmsan kostnað við slys og óhöpp sem verða á vegunum. Notkun jarðefnaeldsneytis er skattlögð í þeim tilgangi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að auka sjálfbærni.
Hér á landi er hluti skatta á eldsneyti notaður til að fjármagna uppbyggingu og viðhald vegakerfisins. Það er hins vegar ekki þekkt á Norðurlöndunum en algengt í Norður-Ameríku. Sums staðar er skattlagningu beitt til þess að hafa áhrif á umferðarálag.
Eldsneyti er víða skattlagt töluvert mikið og í mörgum nágrannalandanna er skattur meira en helmingur af söluverði. Á meðfylgjandi mynd er sýnt hvert skatthlutfall af bensíni var í endanlegu söluverði í ágúst síðastliðnum í nokkrum löndum. Byggt er á upplýsingum frá alþjóða orkumálastofnuninni (IEA) nema fyrir Svíþjóð og Noreg og svo Ísland. Gengissveiflur og örar verðbreytingar hafa að sjálfsögðu áhrif á þennansamanburð.
Skatthlutfallið, og verð á lítra var hæst í Stóra-Bretlandi. Bandaríkin skera sig úr með mun lægri skatta á bensín en í öðrum löndum en bensínverð fyrir utan skatt þar er álíka og í Stóra-Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi.
Nú stendur yfir endurskoðun á allri skattlagningu á ökutæki og eldsneyti hér á landi með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlut vistvænna ökutækja. Sambærileg endurskoðun og breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis fer fram víðar.