Stofnun alþjóðlegs landgræðsluskóla á Íslandi
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 105/2007
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, undirrituðu í dag þriggja ára verksamning um uppbyggingu alþjóðlegs landgræðsluskóla til þjálfunar fólks frá þróunarríkjum í landgræðslu og jarðvegsvernd. Stefnt er að því í samvinnu við Háskóla Sameinuðu þjóðanna (United Nations University) að Landgræðsluskólinn verði að loknu þessu verkefni hluti þess skóla, með líku sniði og jarðhita- og sjávarútvegsskólar S.þ., sem reknar eru hér á landi.
Bóklegi hluti námsins fer að mestu leyti fram í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri en starfsþjálfun hjá Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti og í framtíðinni verður leitað eftir samvinnu við fleiri aðila sem vinna að þessum málum. Nú er að ljúka fyrsta sex vikna námskeiði á vegum verkefnisins, og hafa dvalið hér á landi í starfsþjálfun fimm nemendur með tilheyrandi undirbúningsmenntun frá Egyptalandi, Mongólíu, Túnis og Úganda. Næsta ár verður námstíminn lengdur upp í sex mánuði.
Undirbúningur verkefnisins hefur verið unninn í nánu samráði við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Formaður undirbúningsnefndar er Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, en Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Landbúnaðarháskólann veitir því forstöðu.