Kynning á drögum að nýrri námskrá: Aðalnámskrá framhaldsskóla; námsbraut í fótaaðgerðafræði
Til framhaldsskóla og hagsmunaaðila
Menntamálaráðuneytið óskar hér með eftir umsögn um drög að nýrri námskrá fyrir námsbraut í fótaaðgerðafræði. Námskráin er unnin að frumkvæði starfsgreinaráðs heilbrigðis- og félagsgreina í nánu samstarfi við Félag fótaaðgerðafræðinga. Fótaaðgerðafræðingar eru heilbrigðisstétt. Lítil fjölgun er í stéttinni, m.a. vegna þess að námið er ekki í boði hér á landi. Á sama tíma kallar heilbrigðis- og félagsþjónustan eftir meiri mannafla til starfa. Fótaaðgerðafræði getur í framtíðinni orðið eitt af þeim sérfögum sem heilbrigðis- og félagsþjónustan getur nýtt sér í auknum mæli líkt og gert er í nágrannalöndum okkar.
Fótaaðgerðanám er mislangt í nágrannalöndum okkar, allt frá tveggja ára framhaldsskólanámi til fagháskólanáms. Hér er námið sett fram sem 130 einingar á framhaldsskólastigi. Í námskránni er að finna námsmarkmið og áfangalýsingar brautarinnar.
Námskrárdrögin eru birt til kynningar á vefsvæði ráðuneytisins næstu þrjár vikurnar, eða til 26. okt. næstkomandi. Á þeim tíma gefst hagsmunaaðilum og almenningi kostur á að senda athugasemdir og ábendingar um námskrána í heild, eða einstaka þætti hennar, til menntamálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Einnig er hægt að senda athugasemdir á netfangið [email protected] .
Að umsagnarferli loknu mun ráðuneytið gera nauðsynlegar lagfæringar á námskránni, staðfesta hana og senda auglýsingu um gildistöku hennar til birtingar í Stjórnartíðindum.
Námskráin verður að því loknu birt á námskrárvef ráðuneytisins. Farið er fram á að efni þessa bréfs sé kynnt þeim sem málið varðar.